Maríanna Pálsdóttir og Elísabet Reynisdóttir sameina krafta sína og ætla að standa fyrir námskeiði sem ber yfirskriftina Nærvitund. Í námskeiðinu er hugað að næringu, hreyfingu, hleðslu og slökun fyr- ir líkama og sál. Þær leggja upp úr því að bjóða upp á matseðla sem næra sálina og veita húðinni ljóma.
Markmiðið er að hver og ein nái að vera besta útkoman af sjálfri sér og nái þessari útgeislun og ljóma. Báðar eiga þær erfitt ár að baki og vita hversu mikilvægt það er að huga að líkama og sál til að auka orku og útgeislun sína.
Nýtt heilsusetur við sjávarsíðuna á Seltjarnarnesi
Maríanna er eigandi UMI studio sem er nýtt heilsusetur við sjávarsíðuna á Seltjarnarnesi þar sem útsýnið fangar augað. Þar eru í boði hreyfitímar eins og pilates, jóga, bandvefslosun og styrkur svo fátt sé nefnt en þar er einnig snyrti- og nuddstofa. Maríanna átti og rak Snyrtistofu Reykjavíkur um langt skeið en þegar hún ákvað að flytja á Seltjarnarnesið breytti hún um stefnu og bætti við sig jógakennararéttindum, opnaði stúdíó og lét draum sinn rætast um að opna heilsusetur þar sem hreyfing og vellíðan sameinast á fallegan og uppbyggjandi hátt.
Eitt af því sem er lykilatriði til að ná sem bestum árangri þegar hreyfing og vellíðan er annars vegar er að nærast rétt. Það veit Elísabet, sem alla jafna er kölluð Beta Reynis, og leggur mikla áherslu á það og hefur verið að veita ráðgjöf um næringu. Námskeiðið hjá þeim stöllum mun fara fram í UMI studio á Nesinu.
Veiktist alvarlega af taugasjúkdómi
Beta er næringarfræðingur en hún menntaði sig fyrst sem næringarþerapisti og fór síðan í nám í Háskóla Íslands í næringarfræði og síðan áfram í meistaranám.
„Ástæðan fyrir þessu öllu er að fyrir rúmlega 20 árum veiktist ég alvarlega af taugasjúkdómi og þegar ég var á þriðja ári í bataferlinu fann ég að ég þurfti að fá eitthvað annað í líf mitt en ég hafði verið að gera. Ég var alltaf að bíða eftir því að fá heilsuna og líf mitt aftur og það var í raun ekki að ganga upp. Til að hefja bataferlið fyrir alvöru ákvað ég að venda kvæði mínu kross og stökkva í nám í næringarþerapíu.
Með því hófst andleg og líkamleg úrvinnsla á þremur árum sem gaf mér aftur krafta til að takast á við lífið, finna hamingjuna og orkan kom smám saman aftur til baka. Allt annað lagaðist með þessari vinnu sem skólinn krafðist líka að við iðkuðum sjálfar. Eftir útskrift lá leiðin beint í Háskóla Íslands þar sem ég ætlaði aðeins að dýpka þekkinguna en sjö árum síðar var ég komin með meistaragráðu í næringarfræði, hvorki meira né minna,“ segir Beta og brosir.
„Ég vissi ávallt hvað mig langaði að gera en það var að vera heildrænn ráðgjafi og ég hef starfað sem slíkur eftir útskrift. Ég er því að nýta vel það sem ég hef lært og upplifað og lagt mig fram við að leiðbeina öðrum, sem hefur gefið mér mikið,“ segir Beta einlæg og um leið full þakklætis fyrir það sem þessi þekking hefur gefið henni sem persónu.
Ekkert meira gefandi en að aðstoða aðra
Örlögin leiddu síðan Betu og Maríönnu saman og úr var þetta nærandi námskeið, Nærvitund.
„Við kynntumst þegar við báðar vorum að vinna í andlegum málum og náðum saman eins og góðir sálufélagar. Þar með hófst vinkonustuðningur okkar hvor við aðra og hefur verið síðan,“ segir Beta.
„Þar sem ég var að opna þetta fallega heilsusetur bað ég Betu að koma hér inn og vera með ráðgjöf og þegar við vorum að ræða það fæddist þessi góða hugmynd að hanna og þróa námskeið saman. Við höfum báðar átt erfitt ár að baki og þar sem við sátum þarna saman og styrktum hvor aðra fannst okkur þetta vera rétta leiðin til að leiða saman krafta okkar, þekkingu, lausnir og orku til að valdefla aðrar konur. Það er ekkert meira gefandi en að geta aðstoðað aðra við að efla sig, auka vellíðan, getu og orku til að takast á við lífið. Okkur finnst þetta svo rétt og það er eins og þetta hafi átt að gerast, þetta sé tíminn,“ segir Maríanna með hlýju og alúð.
„Ég gæti ekki verið meira sammála, ég hef verið með námskeið sem er 30 og 7 daga matarprógramm og þetta er frábær viðbót við þá flóru. Þetta er heildræn nálgun til að ná sem bestum árangri, það er eitthvað svo rétt við þetta. Ég hef verið að æfa í UMI og hér líður mér vel. Þetta er vellíðunarsetur og samfélag í einum pakka og ég hlakka til að hefja þessa samvinnu og byrja með næringarráðgjöf á þessum fallega stað sem veitir mér innblástur,“ bætir Beta við.
Áhersla á útgeislun, vellíðan og aukna orku
„Á námskeiðinu leggjum við áherslu á útgeislun, vellíðan og að auka orku þátttakenda. Það er byggt á þremur vikum með matarprógrammi og inni í því er þriggja daga hreinsun sem við tökum í annarri viku. Við munum hittast hér í UMI stúdíói tvisvar í viku í um það bil eina og hálfa klukkustund í senn. Þá munum við keyra á líkamsrækt, fræðslu, sjálfsrækt og hvernig við tileinkum okkur nýtt upphaf og nýjan lífsstíl með markmiðssetningu. Síðan er það djúpslökunin sem skiptir líka miklu máli,“ segir Beta þegar hún er spurð út í námskeiðið.
„Þetta er alveg nýtt námskeið með nýrri nálgun og við munum iðka alla þessa þætti í 21 dag og vonandi áfram inn í framtíðina. Þá er markmiðinu náð. Við hlökkum mikið til að taka á móti góðum hópi kvenna sem eru að byrja á fyrsta námskeiðinu í byrjun maí og gefa þeim og okkur góða byrjun inn í sumarið,“ bætir Maríanna við full tilhlökkunar.
Maríanna mun til að mynda vera með fyrirlestur um umhirðu húðarinnar og fjalla um mikilvægi þess að velja réttar húðvörur og hvað ætti að varast. Eitt af því sem skiptir líka máli þegar kemur að umhirðu húðarinnar er hvað við borðum og drekkum. Með réttu mataræði er hægt að ná fallegum ljóma.
Súpa sem nærir sálina
Maríanna og Beta gefa lesendum uppskrift að heilsueflandi og bragðgóðri súpu sem lýsir vel sambandi þeirra við góða næringu sem gleður bæði líkama og sál. „Þetta er súpa sem nærir sálina,“ segir Beta að lokum.
Fyrir áhugasama má finna allar upplýsingar um námskeiðið á heimasíðu Umi hér eða á heimasíðu Betu Reynis hér..
Grænmetissúpa með sellerírót, graskeri og sætri kartöflu
- 1 sellerírót
- 1 grasker (butternut squash)
- 1 sæt kartafla
- 1-2 stk. grænmetisteningar (fer eftir magni grænmetis)
- 1-2 bollar rjómi (fer eftir magni grænmetis)
- salt og svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
- Setjið grænmetið í eldfast mót eða ofnplötu og bakið við 190°C í 1 klukkustund.
- Látið grænmetið kólna, fjarlægið síðan hýðið og skerið grænmetið í bita.
- Setjið í pott og hitið í vatni ásamt súputeningi og kryddi.
- Látið malla þar til grænmetið er orðið nógu mjúkt til að nota töfrasprota eða setja í blandara.
- Bætið rjómanum út í og hitið súpuna í 2-3 mínútur í viðbót.
- Beta mælir með til að krydda upp á súpuna að setja þeyttan rjóma og chiliflögur eftir smekk yfir súpuskálina þegar súpan er borin fram.
- Þessi súpa er töfrum líkust þegar þessar þrjár tegundir af grænmeti koma saman.
- Kremuð, bragðgóð og auðvelt að gera hana.