Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, vildi ekkert gefa upp um hvað amaði að Mikel Merino og Ben White, en hvorugur var í leikmannahópnum þegar liðið gerði jafntefli við Crystal Palace, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
„Við þurfum að bíða og sjá þar sem þeir gátu ekki verið hluti af leikmannahópnum í kvöld,“ sagði Arteta í samtali við breska ríkisútvarpið eftir leikinn í gærkvöldi.
Aðspurður vildi hann ekki segja frá því hvers konar meiðsli þeir væru að glíma við.
Stórbrotin mörk Palace gegn Arsenal (myndskeið)
Stórleikur eftir fimm daga
Merino hefur reynst liðinu sérstaklega mikilvægur að undanförnu en hann hefur komið að 13 mörkum með beinum hætti á tímabilinu, flestum eftir að hann var færður í fremstu víglínu vegna meiðsla Kai Havertz og Gabriel Jesus.
White er nýstiginn upp úr meiðslum en Jurrien Timber hefur staðið sína plikt í hægri bakverðinum í fjarveru hans.
Arsenal á hins vegar fyrir höndum mikilvægasta leik tímabilsins næstkomandi þriðjudagskvöld þegar liðið mætir París SG í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í Lundúnum og vill Arteta því vitanlega hafa sem flesta leikmenn leikfæra.