„Maður er bara stoltur og hreykinn af liðinu fyrir frábæra frammistöðu allan leikinn,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, eftir 2:1-sigur liðsins gegn Stjörnunni í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Hvernig fannst þér frammistaða liðsins í kvöld?
„Mér fannst hún virkilega góð og gott frumkvæði sem við tökum eftir fyrstu tíu mínúturnar. Þær voru smá liðin að þreifa fyrir sér og þeir eru með skemmilegar hreyfingar og eru bara erfiðir.
Mér fannst við heilt yfir vera með frumkvæðið og stjórnina í þessum leik. Við fáum óendanlega mikið af góðum stöðum sem við förum ekki nógu vel með og svo fer þetta í slána og stöngina. Ég á fjögur skot yfir markið, halla sér yfir boltann, takk. En þetta var mjög góð frammistaða fyrst og síðast.“
Hvernig var tilfinningin að skora sigurmarkið alveg í blálokin?
„Hún var mjög gefandi og skemmtileg, góður svona hápunktur í lokin og gaman að fara að fagna með stúkunni og rífa aðeins upp stemninguna í lokin.“
Breiðablik fer til Ísafjarðar og mætir Vestra í næsta leik á sunnudaginn.
„Það er djöfulli erfitt verkefni. Við fundum fyrir því fyrir ári síðan þegar við áttum jafntefli í erfiðum leik. Þeir eru kraftmiklir á sínum heimavelli og Davíð er búinn að drilla helvíti öflugt varnarlið sem er hættulegt í skyndisóknum. Það er bara leikur sem við þurfum að taka alvarlega eins og öllum í þessari deild,“ bætti Höskuldur við í lokin.