mið. 23. apr. 2025 23:30
Gísli Marteinn Baldvinsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn í kvöld.
Gísli Marteinn: „Ég er Siglfirðingur“

Það er ekki á hverjum degi sem íþróttafréttamenn ná tali af íþróttagarpi sem heitir Gísli Marteinn. Gísli Marteinn Baldvinsson var í essinu sínu í kvöld þegar blaklið KA landaði enn einum Íslandsmeistaratitlinum.

Það kom í hans hlut að klára leikinn með svakalegri hávörn en hún skilaði síðasta stigi tímabilsins í hús. KA vann Þrótt Reykjavík í kvöld 3:1 og fóru hrinurnar 26:24, 25:22, 17:25 og 26:24. Um háspennuleik var að ræða og hvert lítið atriði gat skipt sköpum.

Enn einn Íslandsmeistaratitillinn til KA

Gísli Marteinn kom í gott viðtal eftir bikarafhendinguna og innilegan fögnuð KA-manna þar sem tárin flæddu hjá mörgum.

Sæll Gísli Marteinn. Þetta var mjög jafn leikur. Hvað telur þú að hafi skilað sigri ykkar?

„Það var meiri vilji í okkur, tel ég. Mér fannst Þróttararnir aðeins hikandi en þeir sýndu samt góðan leik og fóru illa með okkur í þriðju hrinunni.“

Tvær hrinur enduðu 26:24 fyrir ykkur og í þeim báðum komst Þróttur á undan í 24 stig.

„Það er vissulega stressandi en það var aldrei neinn vafi hjá okkur að klára þennan leik. Við trúðum alltaf á að við gætum klórað okkur til baka og það skilaði sér.“

Ég tók sérstaklega eftir því í lokahrinunni að hávörnin ykkar var að skila mörgum stigum og þú einmitt skoraðir lokastigið með góðri hávörn. Stig úr hávörn eru sætustu stigin, ekki satt.

„Ég fékk einhverja tilfinningu, einhvern hnút í magan þarna í lokin, sem sagði mér að eitthvað gott væri að fara að gerast. Og þá kom síðasta stigið og auðvitað var það rosalega sætt. En þetta var bara eitt stig og allir lögðu sitt í púkkið og ég á ekkert meira í þessum sigri en allir liðsfélagarnir.“

Ég tek líka eftir því að fólk grætur hér fyrir aftan okkur. Eru leikmenn liðsins tilfinninganæmir?

„Þetta sýnir bara ástríðuna fyrir blakinu hjá okkur í KA. Við vildum allir þennan sigur. Það er öflugt fólk sem stendur með okkur og við vildum klára þetta fyrir fólkið okkar hér á heimavellinum eins og gerðist fyrir tveimur árum. Stuðningurinn var stórkostlegur og fólkið mætti og gaf okkur aukamann.“

Hvað ert þú búinn að vera lengi með þessu KA-liði?

„Ég byrjaði fyrir sex árum. Þá sótti ég nám hingað til Akureyrar og byrjaði að æfa með meistaraflokki.“

Þú ert að segja mér að þú sért rétt nýkominn í bæinn. Þú ert ekki frá Akureyri?

„Nei ég er ekki héðan. Ég er Siglfirðingur,“ sagði Gísli Marteinn með þungri áherslu.

Það er nú ekki verra enda öflugt blakstarf úti á Tröllaskaganum. En þá er það lokaspurningin fyrir mann sem heitir Gísli Marteinn...

Nú greip piltur orðið strax. „Það er búið að gera öll grín af þessu sem hægt er að gera,“ og vissi greinilega um hvað yrði spurt. Þar mátaði hann blaðamann og skellti sér því næst í myndatöku með liðsfélögum sínum.

til baka