mið. 23. apr. 2025 22:23
Fleiri Norðmenn eiga afmæli í dag, 23. apríl, en nokkurn annan dag ársins, alls 14.000 afmælisbörn fagna deginum. Myndin sýnir hins vegar nýfædda Íslendinga á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans árið 1997.
Tæplega 14.000 Norðmenn afmælisbörn

Dagurinn í dag, 23. apríl, er algengasti afmælisdagurinn í Noregi og fagna um 14.000 Norðmenn afmæli sínu í dag, eftir því sem tölur norsku hagstofunnar Statistisk sentralbyrå sýna svo ekki verður um villst.

Auk þess er apríl sá mánuður sem gefur af sér flesta nýbura og var fjöldamet í fæðingum sett á fæðingardeild Sjúkrahússins í Østfold 7. apríl þegar 22 börn fæddust þar þann dag nú í mánuðinum. Hins vegar er það annar dagur jóla, 26. desember, sem er fæðingardagur fæstra, að hlaup ársdeginum 29. febrúar að sjálfsögðu undanskildum.

Að sögn Marianne Linde, fæðingarlæknis og deildarstjóra fæðingardeildarinnar við Østfold-sjúkrahúsið, koma að meðaltali átta ný börn í heiminn þar á deildinni sólarhring hvern, en í dag voru fæðingarnar orðnar níu fyrir klukkan tólf á hádegi.

Notalegt að deila deginum

„Þetta hefur eitthvað með síðsumarið að gera, það er gullna tímabilið fyrir getnað,“ segir deildarstjórinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að 200 börn hafi nú fæðst það sem af er mánaðarins auk þess sem búist sé við hvelli undir mánaðamót.

Annar jóladagur slær á hinn bóginn tóninn fyrir desembermánuð, mánuðinn þegar fæstir norskir nýburar líta dagsins ljós fyrsta sinni.

Aya El-Helou er grunnskólakennari sem á sínum tíma fæddist 23. apríl. Hefur hún ekkert á móti því að deila afmælisdeginum sínum með tæplega 14.000 löndum sínum og segir fjölmennið nánast kalla á eina stóra veislu til heiðurs fjöldanum.

„Mér finnst bara notalegt að deila deginum,“ segir El-Helou við NRK skömmu eftir að nemendur hennar sungu afmælissönginn góðkunna fyrir hana. „Ekki veit ég hvers vegna svo margir eiga afmæli í dag, það hefur með ágúst að gera. Það er þá sem hlutirnir gerast, endalok sumarsins eru upphaf einhvers nýs,“ segir afmælisbarnið.

NRK

NRK-II (fjórtán ára met slegið)

Norska hagstofan SSB

til baka