Keflavík er komin með bakið upp við vegginn fræga eftir tap gegn Njarðvík á heimavelli sínum í Keflavík í kvöld í öðrum leik liðanna í undanúrslitunum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik.
Staðan í einvíginu er því 2:0 fyrir Njarðvík sem þarf einn sigur í viðbót til að komast í úrslitaeinvígi.
Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga var að vonum svekktur með úrslitin þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik.
Hvað fór úrskeiðis hjá Keflavík í kvöld?
„Það fór í raun ekkert áberandi úrskeiðis. Við hittum illa líkt og í síðasta leik. Boltinn gekk samt betur í sókninni og vörnin var mun betri í kvöld. En það dugði bara ekki til.“
Njarðvík er með 24 tapaða bolta í kvöld sem staðfestir að vörnin var að gera vel en sóknarlega talar þú um að þitt lið hitti illa. Hvað annað fór úrskeiðis?
„Svo sem ekkert mikið annað en hins vegar spiluðum við heilan seinni hálfleik á móti liði sem fær dæmdar á sig þrjár villur í heilan seinni hálfleik. Það er erfitt fyrir öll lið og ég sé ekkert lið vinna leik þegar þú kemst aldrei á vítalínuna sama hvað á þér er brotið og það er í besta falli skrýtið.“
Má samt ekki segja að þetta hafi verið eitt skot til eða frá sem ræður úrslitum hér í kvöld?
„Jú jú, við gátum jafnað hér í lokin með þriggja stiga skoti en við gerðum það ekki.“
Keflavík er komið upp við vegginn fræga. Þið mætið í höllina í Njarðvík á sunnudag og ætlið væntanlega að svara fyrir þetta þar, ekki satt?
„Við ætlum bara að einbeita okkur að þeim leik og vinna hann. Alveg sama hvernig þessi leikur hefði farið þá er það sér leikur sem hefur sitt líf og við munum gera allt sem við getum til að vinna hann,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is.