mið. 23. apr. 2025 21:40
KA er Íslandsmeistari í blaki karla.
Enn einn Íslandsmeistaratitillinn til KA

Karlalið KA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki í kvöld og er KA því með alla stóru titlana í blakinu þetta árið. Kvennaliðið vann alla titla vetrarins en KA þrjá af þeim fjórum sem í boði voru.

KA mætti Þrótti Reykjavík í úrslitaeinvíginu og vann fyrstu tvo leikina 3:0 og 3:2. Í kvöld var KA á heimavelli sínum og var liðið vel stutt af öflugum stuðningsmönnum. KA vann leikinn 3:1 en tvær hrinur enduðu með minnsta mun, báðar fóru 26:24 fyrir KA.

Fyrsta hrinan í kvöld var í jafnvægi framan af en um hana miðja skoruðu Þróttarar sex stig í röð og komust yfir, 14:16. KA jafnaði strax og svo var nagandi spenna úr hrinuna. Þróttur var með pálmann í höndunum i stöðunni 22:24 en KA skoraði fjögur síðustu stigin og vann því hrinuna 26:24.

Með byr í seglin var KA mun betra liðið framan af annarri hrinunni. Mestur varð munurinn sex stig í stöðunni 13:7. Þróttarar börðust fyrir sínu og hleyptu KA ekki lengra frá sér. Þeir náðu að minnka muninn niður í eitt stig en KA spýtti í lófana og kláraði hrinuna nokkuð örugglega, vann hana 25:22.

Staðan var þá orðin 2:0 fyrir KA og Þróttarar í nokkuð djúpri holu.

 

Þriðja hrinan var Þróttara. Eftir jafna byrjun á henni tók Þróttur völdin. Staðan fór úr 5:5 í 11:14 og síðan 13:19. Sóknir Þróttara gengu vel og KA-menn fóru að hengja haus. Þróttur vann hrinuna örugglega 18:25.

KA byrjaði fjórðu hrinuna með látum og komst í 4:0. Tvær sturtublokkir komu KA svo í 6:2 og skömmu síðar fór rautt spjald á loft. Þróttarinn Mateusz Rucinski fékk það fyrir mótmæli en rautt spjald sést sjaldan í blakleikjum. Það hefur ekki verri afleiðingar en að gefa andstæðingnum eitt stig. KA var yfir fram í miðja hrinuna en Þróttur var á hælum norðanmanna. Þrótur jafnaði loks, 13:13 en þá hreinlega múruðu KA-menn upp í hávörnina sína. Skildu leiðir á ný og KA komst í 19:15.

Þróttur sýndi fádæma baráttu með Mateusz Kloska fremstan í flokki og jafnaði aftur, 21:21 og spennan var áþreifanleg í KA-heimilinu. En ballið var rétt að byrja. Þróttur komst í fyrsta skipti yfir í stöðunni 23:24. KA jafnaði og skoraði svo tvö síðustu stigin og vann hrinuna 26:24. Það fór vel á því að góð hávörn hafi klárað leikinn en hávörnin var aðall KA í lokahrinunni.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur KA-manna með 18 stig en Gísli Marteinn Baldvinsson var með 14.

Hjá Þrótti var Mateusz Kloska með 16 stig en Przemyslaw Stasiek var með 14.

til baka