mið. 23. apr. 2025 22:20
Hlynur Sævar Jónsson.
„Þeir eru ógeðslega erfiðir“

Hlynur Sævar Jónsson, miðvörður ÍA, var að vonum svekktur með 0:2-tap fyrir Vestra í Bestu deildinni í knattspyrnu í Akraneshöllinni í kvöld en hrósaði andstæðingunum fyrir sína frammistöðu.

„Mér fannst við byrja gríðarlega sterkt og hafa öll tök á leiknum fyrstu 10-15 mínúturnar. Svo fá þeir smá meðbyr og þeir eru bara ógeðslega erfiðir, sérstaklega þegar þeir komast yfir.

Þetta er erfitt og sterkt lið og þeir refsuðu okkar gríðarlega vel. Það er bara kredit á þá og við verðum að gera betur,“ sagði Hlynur Sævar í samtali við mbl.is eftir leik.

Óaðfinnanlegur Vestri á toppinn

Hann sagði ekkert hafa komið Skagamönnum á óvart í leik Vestra í kvöld.

„Alls ekki. Við vissum alveg að þeir yrðu fastir fyrir og myndu setja langa bolta fram á okkur sem við myndum þurfa að fást við. Því miður vorum við undir í því.“

 

Engin uppgjöf hjá Skagamönnum

Þrátt fyrir að vera miðvörður fékk Hlynur Sævar flest af þeim góðu færum sem ÍA skapaði sér í leiknum í kvöld. Viðurkenndi hann svekkelsi yfir því að skora ekki.

„Já, ég er mjög svekktur. Ég fæ náttúrlega dauðafæri á sjöttu mínútu. Svo fékk ég nokkur færi til viðbótar og ég á alltaf að setja eitthvað af þessu í netið. Því miður þá gekk það ekki í dag,“ sagði Hlynur Sævar.

Eftir tvö töp í deildinni í röð eru Skagamenn síður en svo af baki dottnir.

„Við höldum áfram. Það er náttúrlega það langt eftir. Við erum með gott lið og trúum á það sem við erum að gera.

Það er bara að rífa sig áfram og halda áfram. Það er alls engin uppgjöf hjá Skagamönnum og hefur aldrei verið,“ sagði hann ákveðinn.

til baka