mið. 23. apr. 2025 22:11
Mehamn er hluti af sveitarfélaginu Gamvik í nyrsta fylki Noregs þar sem lögregla réðst til inngöngu í nokkur sjávarútvegsfyrirtæki og handtók níu manns í stóraðgerð í dag.
Stóraðgerð lögreglu nyrst í Noregi

Níu manns hafa verið handteknir og eru formlega grunaðir um brot á norskri fiskveiðilöggjöf eftir að lögregla lét til skarar skríða í nyrsta fylki landsins, Finnmark, í dag og réðst til inngöngu í sjávarútvegsfyrirtæki í fimm sveitarfélögum, Lebesby, Gamvik, Tana, Porsanger og Hammerfest, í kjölfar rannsóknarvinnu sem hún segir hafa staðið í eitt ár.

Svart samstarf áhafna og fiskmarkaða, kvótasvindl og falsaðar aflatölur reyndist vera umfangsmikið í þessum nyrstu véum Noregs þar sem sjávarútvegurinn er helsta lifibrauð hins fámenna heimskautafylkis sem að flatarmáli er töluvert stærra en Danmörk, en fóstrar þó aðeins um 75.000 íbúa.

„Hér er um að ræða gróft brot gegn fiskveiðilöggjöf,“ sagði Morten Daae lögreglufulltrúi á blaðamannafundi lögreglunnar í dag, „refsiramminn er sex ár. Auk þess viljum við meina að hér sé um skipulagða glæpastarfsemi að ræða sem getur teygt refsirammann upp í tólf ár,“ sagði hann enn fremur.

Yfir 30 ábendingar borist

Hafði lögregla afskipti af fimm sjávarútvegsfyrirtækjum sem öll tengjast gegnum eignarhald, en eftir því sem Torstein Pettersen yfirlögregluþjónn sagði á blaðamannafundinum höfðu lögreglu borist yfir 30 ábendingar um afbrotastarfsemina áður en ráðist var í lögregluaðgerðina þar sem lögreglan naut aðstoðar Sjávarútvegsstofnunar Noregs, strandgæslu, skattyfirvalda og tollgæslunnar.

Svo sem fram hefur komið nær rannsókn lögreglu aftur til síðasta árs og var það í fyrrasumar sem hún tók að skoða sjávarútvegsfyrirtæki í Finnmark vegna gruns um brot.

„Við öflum okkur nú frekari upplýsinga í kjölfar húsleitar hjá löndunarstöðvum og í ýmsu skrifstofuhúsnæði auk leitar um borð í bátum og yfirheyrslna. Markmiðið er að skapa sterkan grundvöll framhaldsrannsóknar,ׅ“ segir Daae lögreglufulltrúi að lokum um lögregluaðgerðina í Finnmark sem hugsanlega mun afhjúpa fiskveiðibrot undir merkjum skipulagðrar glæpastarfsemi.

NRK

ABC Nyheter

Fiskeribladet

til baka