mið. 23. apr. 2025 22:00
FH-ingar fagna öðru marka sinna í kvöld.
Við erum ekkert litlir í okkur

Sigurður Bjartur Hallsson, sóknarmaður FH, átti flottan leik og var óheppinn að skora ekki þegar FH og KR gerðu 2:2 jafntefli í 3. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar spiluðu manni færri meiri hluta seinni hálfleiks eftir að Björn Daníel Sverrisson fékk rautt spjald fyrir tæklingu á Júlíusi Mar Júlíussyni, varnarmanni KR. Manni færri komust heimamenn yfir en KR-ingar jöfnuðu og þjörmuðu stíft að heimamönnum í lokin.

„Við ætluðum að hápressa þá aggresíft og rauða spjaldið verður til þannig að við erum í pressu og Bjössi verður fyrir því óláni að hann fer of aggresíft í hann. Ég sá samt ekki hvort þetta hafi verið rautt spjald eða ekki en þetta fylgir þessari spilamennsku. Menn eru að fara í návígi af fullum þunga og þá getur svona gerst.

Við stöndum vaktina vel eftir þetta atvik og klárum leikinn. Það hefði verið snilld að klára þrjú stig, það hefði verið risastórt, en við virðum klárlega stigið úr því sem komið var," sagði Sigurður Bjartur.

Fyrir leikinn hafði FH ekki unnið leik í fyrstu þremur leikjum tímabilsins, tvö töp í deildinni og fallnir úr bikarnum eftir tap. FH-ingar hefðu viljað byrja mótið betur en þeir horfa björtum augum á tímabilið.

„Já vissulega, en það eru 24 leikir eftir og hellingur eftir af þessu móti. Þrátt fyrir að við séum ekki komnir með nein stig að ráði erum við ekkert litlir í okkur eða neitt svoleiðis. Við vitum alveg að við erum að fara að gera gott mót og það er enginn á því að við séum að fara í einhverja fallbaráttu. Það eru allir með bökin saman og við ætlum að vinna hvern einasta leik sem við förum í," sagði Sigurður Bjartur að lokum í samtali við mbl.is.

til baka