„Tilfinningin er mjög góð. Það eru allir voða glaðir og þetta voru erfið en góð þrjú stig,“ sagði Gunnar Jónas Hauksson, miðjumaður Vestra, eftir sterkan 2:0-sigur liðsins á ÍA í Bestu deildinni í knattspyrnu í Akraneshöllinni í kvöld.
Gunnar Jónas lék síðari hálfleikinn og var ekki í vafa um hvað hafi skapað sigur Vestra í kvöld.
„Það var liðsandi og samheldni. Það voru allir tilbúnir til þess að deyja fyrir hvern annan. Það voru allir tilbúnir í verkefnið,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leik.
Óaðfinnanlegur Vestri á toppinn
Við elskum hann líka
Leikurinn var óaðfinnanlega settur upp af Davíð Smára Lamude þjálfara þar sem leikskipulagið gekk fullkomlega eftir.
„Já, algjörlega. Hann elskar varnarleik og við elskum hann líka. Það er helvíti sterkt að vera fastur fyrir í vörn og svo vitum við að það koma mörk hjá okkur nánast í hverjum einasta leik. Svo lengi sem þú spilar vörnina nógu andskoti vel þá koma mörkin,“ sagði Gunnar Jónas.
Vestri er eftir sigurinn á toppi Bestu deildarinnar en miðjumaðurinn sagði Vestramenn ekki að fara fram úr sér.
„Það er bara næsti leikur. Hann er gegn Breiðabliki á heimavelli og það verður mjög erfiður leikur. Hausinn verður settur niður fyrir þann leik og svo höldum við bara áfram í þann næsta og svo þann næsta,“ sagði Gunnar Jónas að lokum.