Einar Árni Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik, var stoltur af sínu liði sem vann Keflavík í kvöld 76:73 og er einum sigri frá því að komast í úrslitaeinvígi gegn annaðhvort Haukum eða Val.
Spurður út í leikinn sagði Einar Árni þetta:
„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu mínu. Þvílíkir stríðsmenn sem þær eru. Það var ýmislegt sem var ekki eins og við vildum hafa það í dag en stelpurnar börðust bara fáranlega vel í gegnum það.
Við erum með leikmenn sem eru ekki fullir heilsu en sýna þvílíkan karakter og vilja spila allan leikinn. Síðan er ég bara svo gríðarlega ánægður með liðsheildina eins og svo oft í vetur.
Innkoman hjá Láru Ösp Ásgeirsdóttur var frábær. Sara Björk Logadóttir var frábær. Eygló Kristín Óskarsdóttir leysti sínar mínútur ofboðslega vel. Síðan var Hulda María Agnarsdóttir þvílíkt hugrökk í sínum aðgerðum og þorði að taka af skarið hérna í kvöld. Þetta var bara frábær liðssigur.“
Oft og tíðum leyfðu dómararnir ansi mikið í kvöld. Það hlýtur að hafa tekið orku að þurfa eiga í svoleiðis baráttu?
„Það eru þín orð en mínir leikmenn sýndu bara styrk og við töluðum um það að líklega kæmi Keflavík enn þá grimmari til leiks og spilaði fastar í kvöld, og það stóðst.“
Næsti leikur er á sunnudaginn á ykkar heimavelli. Það er væntanlega markmið Njarðvíkur að klára einvígið þar, ekki satt?
„Jú að sjálfsögðu. Við þurfum að nota dagana núna til að ná upp kröftum aftur. Þurfum að hugsa vel um okkur og fara yfir hvað gæti komið næst úr þeirra rangi og vera þá með svör við því sem kemur til með að dynja á okkur.“
Veistu hvað það er langt síðan Njarðvík vann Keflavík síðast á þeirra heimavelli í kvennakörfubolta?
„Nei, ég held það sé langt síðan. En mér var sagt í dag að Njarðvík hafi aldrei unnið Keflavík tvisvar í röð. Nú eru sigrarnir orðnir 5 í röð. Við erum að skrifa sögu. Það er samt nóg eftir og við þurfum að vinna þrjá sigra í þessu einvígi og við höfum ekki unnið neinn leik auðveldlega gegn þeim í vetur, bara svo það sé sagt.“
Það hlýtur samt að vera mikill styrkleiki að vinna hér í kvöld og með leikmann eins og Brittany, ekki á sínum besta degi?
„Já, hún tapaði 9 boltum í fyrri hálfleik. Það er ekki hennar stíll. Þannig að já, það er styrkur.“
Njarðvík tapar boltanum líka 24 sinnum í leiknum.
„Já, og við töpum 18 boltum í fyrri hálfleik sem er gríðarlega mikið. Að vera yfir í hálfleik með 18 tapaða bolta og Keflavík með 8 sóknarfráköst. Ég sagði við stelpurnar að úr því að staðan væri þessi, að við værum yfir þrátt fyrir þetta og við værum að fara laga þessa hluti, þá væri ekkert annað í stöðunni en að vinna þennan leik. Þær stóðu undir því.“
Verður Brittany heil í næsta leik?
„Nei, nei, hún verður það ekki. Minn maður, Rabbi Júll, nuddarinn okkar er fagmaður mikill og hún er með heimilisfang hjá honum um þessar mundir og hann heldur áfram að vinna í þessum hlutum. Þetta eru skárri meiðsl en við héldum upphaflega og við þurfum að vinna í þessu á milli leikja. Brittany gerir ekkert á milli leikja og hún er stríðsmaður,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.