Arsenal á nú aðeins tölfræðilega von um að ná enska meistaratitlinum í knattspyrnu úr höndum Liverpool eftir jafntefli gegn Crystal Palace á Emirates-leikvanginum í London í kvöld, 2:2.
Arsenal er með 67 stig og á eftir fjóra leiki, getur náð 79 stigum, en Liverpool er með 79 stig og á fimm leiki eftir. Liverpool nægir því eitt stig enn til að verða meistari og gæti tryggt sér titilinn á sunnudaginn þegar liðið tekur á móti Tottenham á Anfield.
Crystal Palace er í 12. sæti deildarinnar með 45 stig.
Pólverjinn Jakub Kiwior kom Arsenal yfir strax á 3. mínútu eftir sendingu frá Martin Ödegaard en Eberechi Eze jafnaði fyrir Palace á 27. mínútu.
Arsenal náði forystunni á ný á 42. mínútu þegar Leandro Trossard skoraði eftir sendingu frá Jurrien Timber, 2:1.
Palace lagði ekki árar í bát og á 82. mínútu nýtti Jean-Philippe Mateta sér kæruleysi í vörn Arsenal, náði boltanum og lyfti honum í markið af 30 metra færi, 2:2.