mið. 23. apr. 2025 20:24
Bjarni Mark Antonsson var kátur í leikslok.
Alltaf skrítið að spila við KA

Bjarni Mark Antonsson leikmaður Vals var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins á KA í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2025/04/23/fyrsti_sigur_vals_kom_gegn_ka/

„Við gerðum það sem við erum góðir í vel. Við refsuðum, héldum skipulaginu og vorum klárir að vinna boltann. Við erum með gæðaleikmenn sem eru góðir að refsa,“ sagði Bjarni um frammistöðu Vals og hélt áfram:

„Það er ekkert sjálfsagt að vinna 3:1. Mér finnst umræðan oft þannig að það sé sjálfsagt að Valur vinni, en það er það ekki. Við gerðum ógeðslega vel og unnum bikarmeistarana 3:1. Þetta var þroskuð frammistaða,“ sagði hann.

Sigurinn var sá fyrsti hjá Val í deildinni á tímabilinu og hann var kærkominn. „Alveg 100 prósent. Þegar þrír leikir eru búnir og við ekki með sigur þá er komin pressa.“

 

Jónatan Ingi Jónsson átti stórleik í kvöld, skoraði tvö mörk, ógnaði mikið og sinnti auk þess varnarleiknum vel.

„Hann er geggjaður og fyrst og fremst frábær manneskja. Hann er auðmjúkur. Í lok leiks var hann að verjast og taka tæklingar. Við sögðum í hálfleik að Jónatan og Tryggvi væru lykilmenn í að við færum að verjast betur.

Þú sérð hvað Jónatan er að gera í hverjum einasta leik. Samt er hann kominn til baka á 75. mínútu að verjast og berjast. Ég get ekki hrósað honum nógu mikið,“ sagði Bjarni um liðsfélaga sinn.

Bjarni lék með KA frá 2012 til 2014 og svo aftur 2018. Hann viðurkenndi að það væri skrítið að mæta sínu gamla liði.

„Það er alltaf skrítið. KA er alltaf mitt lið. Þegar leikurinn er byrjaður gleymir maður því smá. Fyrir leik er alltaf skrítið,“ sagði hann.

Bjarni spilaði sem miðvörður í kvöld en hann hefur leyst af hinar ýmsu stöður í upphafi tímabils.

„Við erum í smá veseni vegna banna og meiðsla. Þetta var fjórði leikurinn og ég er ekki búinn að spila sömu stöðu í neinum þeirra. Það er flott að geta verið sá gæi en það væri betra að hafa þetta í meiri rútínu,“ sagði hann.

En verður hann þá framherji í næsta leik?

„Draumurinn er að vera nýi Mikel Merino. Að ég endi frammi í lok tímabils og komi með mörkin,“ sagði Bjarni léttur.

til baka