mið. 23. apr. 2025 18:07
Skáld Knut Ødegård beinir í ljóðum sínum sjónum að hinu sammannlega.
„Geislandi glaður og þakklátur“

„Ég er geislandi glaður og þakklátur þegar ég minnist bókmenntaævintýrisins, sem ég átti frumkvæði að fyrir 40 árum. Hátíðin er ekki aðeins í fullu fjöri ennþá, hún er umfangsmeiri og fjölbreyttari,“ segir skáldið Knut Ødegård. Hann setur Bókmenntahátíð í Reykjavík í Safnahúsinu í dag kl. 18.

Hvernig kom það til að hátíðin var stofnuð á sínum tíma?

„Ég átti frumkvæðið að hátíðinni vorið 1985 þegar ég var forstjóri Norræna hússins í Reykjavík. Ég ræddi hugmyndina um íslenska bókmenntahátíð við góða vini mína, Einar Braga og Thor Vilhjálmsson, sem voru strax tilbúnir að leggja hátíðinni lið. Við unnum síðan sem samhent eining, þríeyki með mig sem hátíðarstjóra,“ segir Knut og rifjar upp að dýrmætt hafi verið að hafa Norræna húsið sem bakhjarl hátíðarinnar. Rifjar hann einnig upp að fljótlega hafi til liðs til þríeykið gengið Árni Sigurjónsson, Einar Kárason og Örnólfur Thorsson.

„Hátíðin var fyrst hugsuð sem ljóðahátíð og bar fyrsta árið yfirskriftina „Norræn ljóðlistarhátíð“. Þetta var á þeim tíma þegar norræn samheldni var sterk bæði menningarlega og pólitískt, en við opnuðum líka fyrir gestum frá öðrum löndum, þ. á m. voru Seamus Heaney frá Írlandi sem síðar hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum, David Gascoyne frá Englandi og James Tate frá Bandaríkjunum sem síðar hlaut Pulitzer-verðlaun. Það gladdi okkur sérstaklega að forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, samþykkti strax að vera verndari hátíðarinnar og sýndi henni mikinn áhuga.“

Knut rifjar upp að strax eftir fyrstu hátíðina hafi sexmenningarnir sem skipulögðu hana verið sammála um að breyta hátíðina með tvennum hætti. „Fyrst og fremst þurftum við að sjá til þess að fleiri kvenkyns rithöfundar væru með og við vildum skipta úr hreinni ljóðahátíð yfir í bókmenntahátíð sem innihéldi allar tegundir og fleiri málsvæði,“ segir Knut og bendir á að frá og með hátíðinni 1987 hafi nýjar línur fyrir framtíðarhátíðir verið lagðar með góðri kynjaskiptingu og þekktum alþjóðlegum nöfnum í bæði prósa og ljóðlist. Meðal þeirra sem sóttu hátíðina heim það árið voru Fay Weldon, Isabel Allende, Sara Lidman, Alain Robbe-Grillet, Kurt Vonnegut og Andrej Bitov.

Hvernig finnst þér hátíðin hafa elst?

„Þegar ég horfi yfir fyrstu fjörutíu árin frá stofnun hátíðarinnar fyllist ég mikilli gleði og jafnframt stolti yfir því hversu vel hefur til tekist að uppfylla þær ströngu kröfur um bókmenntaleg gæði sem settar voru, samtímis því sem bókmenntaraddir frá ólíkum menningarsvæðum hafa fengið að hljóma. Í raun hefur hátíðin þróast í það að vera ein mikilvægasta og umfangsmesta bókmenntahátíðin í Evrópu. Ef Einar Bragi og Thor Vilhjálmsson væru enn með okkur í dag myndum við allir hrósa þeim sem komið hafa að skipulagningu hátíðarinnar í gegnum tíðina.“

Kemur fyrst út á íslensku

Þú ert í dag einnig að fagna útkomu nýrrar ljóðabókar. Hvað geturðu sagt mér um hana?

„Nýja ljóðasafnið, sem Gerður Kristný hefur endurort á íslensku, ber heitið Áður en hrafnarnir sækja okkur. Í bókinni eru ljóð, sem mörg hver fjalla um öldrun, um hvernig öldrun hefur áhrif á bæði líkama og anda manns. Ég hef fylgst nokkuð náið með mínu eigin öldrunarferli. Það er hnignun en á sama tíma er auður að eldast. Eitt af mörgum þemum er hvernig ástin verður sterkari og ljúfari á milli gamalla hjóna. En hér eru líka ljóð um firringu samtímans samhliða æ stafrænni heimi og um skort á samkennd með þeim sem þjást í þeim hræðilegu stríðum sem við verðum vitni að í dag, í Úkraínu, á Gasa og víðar,“ segir Knut og áréttar að ljóðmælandi allra ljóðanna sé eldri maður sem miðlar því sem hann sér og minnist.

„Öll ljóðin, sem eru 25 talsins, eru tiltölulega ný af nálinni og það sem er mjög sérstakt við þetta ljóðasafn er að ég lét Gerði Kristnýju þýða sex ljóð sem ekki hafa enn komið út á norsku,“ segir Knut, en umrædd ljóð eru hluti af ljóðasafni hans sem kemur út í Noregi í september. „Svipað var upp á teningnum þegar ég þýddi ljóðasafn eftir Matthías Johannessen sem kom út á norsku áður en það var gefið út á Íslandi.“

Krefst þess að vera skrifað

Knut, sem verður áttræður síðar á árinu, rifjar upp að hann hafi átt heimili á Íslandi meirihluta ævi sinnar eða í 42 ár, en hann er kvæntur Þorgerði Ingólfsdóttur. „Allan þann tíma hef ég flakkað reglulega milli Reykjavíkur og Molde í Noregi. Þessi tvíþætta tenging hefur sett mark sitt á ljóð mín. Landslagið er stundum íslenskt, en stundum norska vesturströndin. Ég er alltaf með blýant eða penna og nokkra blaðsnepla í jakkavasanum því ljóðið kemur svo oft alveg óvænt til mín. Oft er þetta bara mynd eða setning sem ég skrifa niður og svo bíð ég þar til ljóðið þróast frekar og ég get klárað að skrifa það. Í þessu felst ákveðinn galdur því ljóðinu verður ekki ýtt áfram af ritviljanum. Ljóðið kemur af sjálfu sér, oft á óvæntustu stöðum, í biðröð fyrir framan afgreiðslukassann í búðinni, á flugvellinum eða í miðri hámessu í kirkjunni. Verst er þegar það kemur á meðan ég er að keyra, en þá verð ég bara að aka út í kant og stöðva bílinn, því ljóðið krefst þess að vera skrifað,“ segir Knut kíminn.

Þið Gerður Kristný hafið í gegnum tíðina þýtt ljóð hvort annars. Hvernig kom sú samvinna til?

„Á árunum 2011 til 2016 vann ég ákaft að fjögurra binda útgáfu minni á eddukvæðunum á nýnorsku. Ég var svo niðursokkinn í þessa vinnu mína að ég hafnaði öllum boðum um upplestur eða önnur ritverkefni. Ég hafði varla tíma til að tala við vini mína á þessu sex ára tímabili. Ég sat og var að vinna með Skírnismál þegar mér barst með póstinum bók frá norsku forlagi þar sem ég var spurður hvort ég gæti þýtt hana. Ég ætlaði strax að leggja bókina frá mér, enda hafði ég engan tíma til að þýða, en ég fletti samt í gegnum bókina sem reyndist vera ljóðabókin Blóðhófnir þar sem Gerður Kristný vann með róttæka túlkun sína á ferðalagi Skírnis,“ segir Knut og vísar þar til þess að í bókinni yrki hún um jötunmeyna Gerði Gymisdóttur sem Skírnir, skósveinn Freys, sótti til Jötunheima handa húsbónda sínum gegn vilja meyjarinnar.

„Þegar ég áttaði mig á hvers eðlis bókin væri lagði ég eddukvæðin til hliðar um tíma og þýddi ljóðabók Gerðar, sem fékk óvenju góðar viðtökur í Noregi,“ segir Knut og rifjar upp að hann hafi einnig þýtt ljóðabálk hennar Urtu sem kom út á norsku síðasta haust undir titlinum Selmor. Bendir hann á að þau Gerður Kristný hafi unnið náið saman í gegnum tíðina þegar þau hafa þýtt ljóð hvort annars. „Ég er þeirrar skoðunar að aðeins skáld – eða einhver sem hefur ljóðræna hæfileika og næmi fyrir orðum – geti þýtt ljóð, því það snýst um að endurskapa, endursemja, sem er í sjálfu sér ljóðrænt ferli.“

Gyrðir á Nóbelsverðlaunastigi

Þegar við ræddum síðast saman fyrir tæpum áratug höfðu ljóðabækur þínar þegar komið út á yfir 40 tungumálum. Hvaða máli skiptir það þig sem höfund að ná til lesenda vítt og breitt um heiminn?

„Ég er það núlifandi norska skáld sem á flestar ljóðabækur þýddar á önnur tungumál, en málin eru nú orðin 43 talsins. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að vera lesinn um allan heim. Það er dásamlegt að vera skilinn vítt og breitt um heiminn þótt ég skrifi mig þétt inn í nærumhverfi mitt. Ég lýsi oft bústörfum eins og ég upplifði þau á bænum okkar í Noregi og gönguferðum í íslensku eða norsku landslagi,“ segir Knut og bendir á að hann beini í ljóðum sínum sjónum að hinu sammannlega; fæðingu og dauða, ást og hatri, ástúð og gjafmildi. „Við fæðumst öll og deyjum, við sáum og uppskerum,“ segir Knut og bendir á að manneskjur um allan heim lifi af því sem jörðin og hafið gefi. „Ég hef staðið uppi á fjöllum Tíbets og með aðstoð þýðanda lesið ljóð mín upphátt fyrir fjallabændur sem hafa kinkað kolli og skilið ljóðin – því þau fjalla um það sem við eigum öll sameiginlegt sem manneskjur.“

Fylgist þú enn vel með íslensku bókmenntasenunni?

„Ég fylgist ekki eins vel með og þegar ég árum saman bar ábyrgð á skrifum um íslenskar bókmenntir í Store norske leksikon. Stærsta breytingin sem orðið hefur frá því ég þýddi Fljótt fljótt, sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson um 1980 er að sterkum kvenskáldum í hópi höfunda hefur fjölgað mikið á Íslandi. Annar munur er að gæði spennusagna hafa aukist, en áður töldust glæpasögur ekki til bókmennta. Thor kenndi mér mikið sem höfundur, enda var hann í fremstu röð ekki aðeins á Íslandi heldur einnig á alþjóðavettvangi. Annar höfundur sem haft hefur djúpstæð áhrif á mig er Gyrðir Elíasson. Hann hefur þróað með sér ritstíl sem er á Nóbelsverðlaunastigi.“

Hvaða er svo fram undan hjá þér?

„Ég ráðgeri að senda frá mér tvær bækur á norsku í haust. Annars vegar er um að ræða nýja ljóðabók sem nefnist Mitt kvite hår i vinden. Hinni bókinni er skipt í tvo hluta sem geyma annars vegar prósatexta sem ég hef skrifað á síðustu árum og hins vegar greinar um höfundarverk mitt í tengslum við 80 ára afmæli mitt í nóvember,“ segir Knut og bendir á að meðal greinarhöfunda sé norski Nóbelsverðlaunahafinn Jon Fosse.

til baka