Pétur Kolka, yfirbarþjónn og vaktstjóri veitingastaðarins OTO sem er staðsettur við Hverfisgötu 44 í miðborginni, vann til verðlauna fyrir besta kokteilinn og fallegustu skreytinguna á Íslandsmeistaramóti barþjóna sem haldið var í byrjun apríl með pomp og prakt í Hörpu.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/04/10/robert_aron_kom_sa_og_sigradi_islandsmeistaramot_ba/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/03/27/staersta_kokteilahatid_islands_hefst_med_latum/
Sigurkokteilinn ber heitið Negroni della Vita og í kjölfarið lenti Pétur í 2. sæti á mótinu sem er stórglæsilegur árangur.
Hann hefur búið og þróaði kokteila- og drykkjarseðil veitingastaðarins OTO sem fagnar einmitt 2 ára afmæli í dag, miðvikudaginn 23. apríl. Kokteillinn er kominn á vínseðilinn í tilefni þessa og nú geta gestir staðarins notið þess að prýða hann augum og smakka.
Fersk, blómleg og sítruskennd útgáfa
„Negroni della Vita er fersk, blómleg og sítruskennd útgáfa af hinum sívinsæla klassíska kokteil Negroni. Íslenska sumarið er innblástur drykkjarins, þar sem við getum verið með skýjaða, bitra rigningadaga, sem endurspeglast í Campari og sæta vermútinum í drykknum.
En síðan fáum við líka þessa sólríku æðislegu sumardaga og fyrir þá erum við með sætt jarðarberja-gin, kirsuberjablóma-vermút og bergamot líkjör. Saman gerir þetta frábæra bitursæta blöndu sem minnir á íslenskt sumar. Nafnið Negroni della Vita er dregið úr ítölsku og þýðir Negroni lífsins,“ segir Pétur þegar hann er beðinn að lýsa drykknum og innblæstrinum.
Negroni della Vita
- 20 ml Beefeater Pink Strawberry
- 20 ml Campari
- 10 ml Italicus bergamot liqueur
- 10 ml Antica Formula sweet vermouth
- 5 ml Mancino sakura vermouth
Aðferð:
- Blandið öllum hráefnunum saman í hræriglas.
- Hrærið saman með klaka og síið í glas við hæfi.
- Skreytið með sítrónubörk á listrænan hátt.