Berglind Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og markþjálfi, gerði sér lítið fyrir og hljóp átta kílómetra umhverfis Vífilsstaðavatn ásamt hlaupahópi Mari Järsk og það á afmælisdaginn sinn, en Berglind fagnaði 49 ára afmæli sínu í gær.
Hlaupafélagar Berglindar tóku vel á móti henni og sungu afmælissönginn áður en lagt var af stað.
Berglind gaf skemmtilega innsýn í afmælisdaginn á Instagram-síðu sinni í morgun og ef marka má myndir þá átti hún ansi góðan og heilsueflandi dag, en hún byrjaði daginn á lyftingaæfingu og endaði hann á gufugusu.
https://www.mbl.is/smartland/frami/2023/09/20/berglind_opnar_nyjan_vefmidil/
„Æji hvað þetta var nú afskaplega fallegur afmælisdagur.
Það hefur skapast sú hefð að annað hvert ár haldi ég risa heimapartý þar sem gleðin er við völd, en hitt árið þá er það lágstemmdara. Í ár var sem sagt komið að lágstemmda afmælinu.
Ef ég hefði spáð frekar í orðinu lágstemmt sem er: Ekki hávær og lætur lítið fyrir sér fara, þá hefði ég líklegast áttað mig á því að þetta orð og ég eigi enga samleið.
En þessi dagur var að minnsta kosti lágstemmdur að hætti Berglindar - þó að ég hafi að sjálfsögðu séð til þess að það færi ekki fram hjá neinum að ég væri afmælisstelpa.
Á þessum lágstemmdu afmælisdögum vil ég bara eitthvað einfalt og nærandi,“ skrifaði Berglind meðal annars við færsluna.