„Íslendingarnir láta ekkert á sig fá. Ég var aðallega bara í því að róa aðra, bæði heimamenn og aðra túrista,“ segir Elínborg Ásdís Árnadóttir. Hún er ásamt manninum sínum í fríi í Istanbúl í Tyrklandi, þar sem jarðskjálfti að stærðinni 6,2 varð í morgun.
Skjálftinn mældist á tíu kílómetra dýpi og átti upptök sín í Marmarahafi skammt frá vesturútjaðri Istanbúl í Tyrklandi og segir Elínborg heimamenn töluvert óttaslegna, „það var auðvitað mannskæður jarðskjálfti hérna fyrir tveimur árum“.
Elínborg segir öryggistilfinningu Íslendinga í slíkum aðstæðum koma með reynslunni. „Við erum bara með eldgos í bakgarðinum, en við erum reyndar vön öruggari byggingum“.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/23/oflugur_jardskjalfti_i_tyrklandi/
„Svo kom svakalegur skjálfti“
„Við vorum við það að leggja af stað út af hótelherberginu. Ég var á gangi um herbergið og maðurinn minn var sitjandi. Hann fann fyrir hreyfingu og nefndi við mig hvort þetta væri jarðskjálfti og ég svaraði bara neitandi, en svo kom svakalegur skjálfti,“ segir Elínborg í samtali við mbl.is.
„Við erum í nýrri byggingu og ég upplifði mig frekar örugga, en við erum það hátt uppi að byggingin sveiflaðist. Þetta var samt öðruvísi en heima, húsin eru ekki byggð eins, þau nötruðu ekki heldur vögguðu til og frá.“
Segir hún heimamönnum hafa verið mjög brugðið. Hótelstarfsmenn hafi verið mikið í símunum og fylgst grannt með umhverfinu og fréttaveitum, „og stendur augljóslega ekki á sama, það var auðvitað mannskæður jarðskjálfti hérna fyrir tveimur árum“.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/02/06/a_annad_hundrad_latnir_eftir_oflugan_jardskjalfta/
Engar skemmdir hafi orðið í borginni
Aðspurð segir hún allar viðvarnir hafa verið á tyrknesku en starfsmaður hafi beðið hótelgesti að vera í útifötum til vonar og vara, „ef við þyrftum að fara brátt út“.
Þá segir hún engar skemmdir hafa orðið í borginni, rafmagn hafi ekki slegið út og að hennar viti hafi engar fréttir borist um slys á fólki.
„Eina sem ég finn fyrir er ótti meðal heimamanna og að allir eru tilbúnir í jökkum og útifötum inni. En þegar ég horfi út um gluggann á hótelinu sé ég að fólk er úti að labba með barnavagna og svona.
Það er léleg nettenging og ég er í úthverfi þannig að ég er ekki viss hvernig ástandið er í miðbænum en það eru börn úti að leika hérna fyrir utan. Fólk er svona með þetta á bakvið eyrað samt.“
Aðspurð segist Elínborg hafa hætt við áætlaða skoðunar- og verslunarferð dagsins, hún og maðurinn hennar ætli að taka því rólega uppi á hótelherbergi, „við erum bara að spila UNO“.