Breiðablik vann dramatískan sigur gegn Stjörnunni, 2:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
Úrslitin þýða að Breiðablik er í þriðja sæti með sex stig, jafnmörg stig og Stjarnan í fjórða sæti.
Viðureignin byrjaði afar rólega. Stjarnan var hættulegri á fyrstu mínútunum en náði ekki að skapa sér færi.
Á 28. mínútu tók Breiðablik forystuna eftir mark frá Kristni Steindórssyni. Eftir mikinn darraðardans í teignum datt boltinn fyrir Kristin sem átti skot í Kjartan Má Kjartansson og þaðan í fjærhornið.
Í kjölfarið náði Breiðablik góðri stjórn á leiknum. Valgeir Valgeirsson fékk gott færi til að bæta í forystu Blika en hann negldi boltanum hátt yfir markið.
Staðan í hálfleik var 1:0, Breiðabliki í vil.
Stjarnan byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og á 50. mínútu jafnaði Örvar Eggertsson metin. Daníel Finns Matthíasson þræddi Örvar í gegn sem skoraði með skoti úr fyrstu snertingu.
Óli Valur Ómarsson var hársbreidd frá því að koma Blikum yfir á 65. mínútu. Óli fékk boltann vinstra megin í teignum, leitaði inn á hægri fót sinn og átti síðan skot í stöngina.
Tobias Thomsen átti skalla í slá á 85. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Óla Vali. Skömmu síðar átti Höskuldur Gunnlaugsson fyrirgjöf á Thomsen en að þessu sinni varði Árni Snær Ólafsson skalla hans.
Í uppbótartíma skoraði Höskuldur sigurmark Blika með góðu skoti. Arnór Gauti Jónsson vann boltann ofarlega á vellinum, kom honum á Höskuld sem átti frábært skot í vinstra hornið.
Fleiri urðu mörkin ekki og lokaniðurstaða því 2:1-sigur Breiðabliks.