Leikkonan Kristen Stewart gekk í hjónaband með handritshöfundinum Dylan Meyer við fallega athöfn á uppáhaldsveitingastað parsins, Casita Del Campo í Los Angeles, á sunnudag.
Stewart, sem er einna þekktust fyrir hlutverk sitt í Twilight-kvikmyndaseríunni, og Meyer opinberuðu samband sitt á Instagram árið 2019 og trúlofuðu sig tveimur árum síðar.
Athöfnin var afslöppuð, ef marka má myndir sem birtust á vefmiðli People, en brúðkaupið fór fram utandyra í blíðskaparveðri og voru ríflega 170 manns sem fögnuðu ástinni með parinu langt fram eftir nóttu.
Meðal gesta voru leikkonan Ashley Benson, sem margir þekkja úr unglingaþáttaröðinni Pretty Little Liars, og eiginmaður hennar, Brandon Davis.