Blaðamannafélag Íslands segir niðurstöðu ársreiknings síðasta árs „ásættanlega“ á óvenjulegu rekstrarári. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi út í gær í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins.
Líkt og fram kom í blaðinu í gær var neikvæður viðsnúningur í rekstri félagsins upp á ríflega 50 milljónir króna á síðasta ári, en tap af rekstri nam 32,5 milljónum króna samanborið við 18 milljóna króna rekstrarhagnað árið á undan. Að teknu tilliti til fjármagnsliða nam tap félagsins 8,6 milljónum króna samanborið við 43,8 milljóna hagnað árið áður.
Í tilkynningunni er tap félagsins einkum rakið til hallareksturs á styrktarsjóði og kostnaðar sem féll á félagssjóð vegna uppgjörs launa eftir uppsögn Hjálmars Jónssonar þáverandi framkvæmdastjóra.
Þá segir að árin 2023 og 2024 hafi bæði verið mjög óvenjuleg rekstrarár hjá félaginu. Vegna trúnaðarbrests milli stjórnar og þáverandi framkvæmdastjóra hafi ákvörðunum stjórnar ekki verið fylgt eftir og félagið verið með litla starfsemi umfram grunnþjónustu við félagsmenn. Því hafi rekstrarafgangur verið óvenjumikill. Árið 2024 hafi hins vegar einkennst af fyrrgreindum hallarekstri og kostnaði auk þess sem lögfræðikostnaður hafi verið óvenjulega hár vegna kjarasamningsgerðar og töluverðs kostnaðar vegna skoðunar á fjármálum félagsins og brýnnar endurskipulagningar á þeim samkvæmt ráðleggingum lögmanna og endurskoðenda.
Ársreikningur félagsins er ekki opinber en var gerður aðgengilegur félagsmönnum í kjölfar umfjöllunarinnar.