mið. 23. apr. 2025 09:17
Skemmtiferðaskipið Seabourn Venture við bryggju í Reykjavík.
Hætta skapaðist á árekstri tveggja skipa

Hætta skapaðist á árekstri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og skemmtiferðaskipsins Seabourn Venture í ágúst í fyrra þegar skemmtiferðaskipið var á leiðinni út úr höfninni í Vestmannaeyjum og Herjólfur að sigla þangað inn.

Beittu skipstjórnarmenn Seabourn Venture neyðarstöðvun en skipstjóri Herjólfs dró úr ferð og beygði inn í Klettsvík til að afstýra árekstri.

Atvikum er lýst í bókun Rannsóknanefndar samgönguslysa. Þar kemur fram, að Herjólfur var með veikan farþega um borð og lá á að koma honum undir læknishendur og því misfórst að tilkynna komu Herjólfs til hafnarinnar við Faxasker eins og venjan er. Brottför skemmtiferðaskipsins tafðist einnig um 8 mínútur.

Þegar hafnsögumaðurinn um borð í Seabourn Venture varð var við Herjólf gaf hann fyrirmæli um að stöðva ferð skipsins en skipstjóri þess hafði þá þegar byrjað að stöðva skipið. Skipstjóri Herjólfs setti vélar á fulla ferð aftur á bak. Eftir samskipti við hafnsögumann sigldi skipstjóri Herjólfs norður fyrir Seabourn Venture inn á Klettsvíkina en farþegaskipið hafði þá verið stöðvað og var haldið kyrru með vélbúnaði.

 

Að beiðni rannsóknarnefndarinnar tók fánaríki skipsins, Bahamaeyjar, skýrslu af öllum skipstjórnarmönnum sem voru á stjórnpalli þegar atvikið átti sér stað. Þeir voru samhljóða um atburðarásina en þeir stóðu á tímabili í þeirri meiningu að Herjólfur myndi beygja á bakborða og snúa við. Fram kom hjá skipstjóra Seaborn Venture að samskipti hafnsögumanns og skipstjórnanda Herjólfs fóru fram á íslensku sem skipstjórnarmenn á Seaborn Venture skildu ekki. Tók því tíma að koma réttum boðum til skipstjórnarmannanna um hvað væri að gerast.

Í bókun nefndarinnar segir að útgerð Herjólfs hafi í kjölfarið brýnt fyrir skipstjórnarmönnum sínum að gæta þess að tilkynna sig við Faxasker á leið til hafnar í Vestmannaeyjum og færa merki um það inn í siglingatölvu skipsins til að koma í veg fyrir að það misfærist. Hið sama eigi við um hafnsögumenn sem eru að leiðsegja skipum til hafnar. Til athugunar sé hjá hafnaryfirvöldum að öll skip tilkynni sig á sama stað vegna þess hversu þröng innsiglingin er.

Þá brýndi Vestmannaeyjahöfn fyrir hafnsögumönnum að tilkynna skip sem þeir eru að leiðsegja frá bryggju jafnframt því að vera í nánum samskiptum við skipstjórnarmenn Herjólfs meðan verið er að leiðsegja skipum á þeim tíma.

til baka