mið. 23. apr. 2025 06:30
Girnilegt ofnbakað lambalæri með sinnepsrjómasósu og kartöflugratíni að hætti Völlu er fullkomin máltíð til að kveðja veturinn með stæl.
Ofnbakað lambalæri með sinnepsrjómasósu og kartöflugratíni að hætti Völlu

Síðasti vetrardagur er í dag og þá er lag að bjóða upp á matarveislu og kveðja veturinn með sæmd. Á morgun, fimmtudaginn 24. apríl, er sumardagurinn fyrsti og án efa munu margir taka sumrinu fagnandi.

Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, eldaði á dögunum dýrindis lambalæri á franska vísu og deildi með fylgjendum sínum uppskriftinni sem á vel við á þessum síðasta degi vetrarins.

Valla maríneraðil ærið í franskri sinnepsdressingu sem innblásin er af Juliu Child, sem var sérfræðingur þegar kom að franskri matargerð. Frakkarnir eru þó ekki alveg jafn mikið sósufólk og við Íslendingar svo Valla útbjó einfalda sinnepsrjómasósu til að hafa með kjötinu og rótargrænmetisgratíni.

 

Ofnbakað lambalæri með sinnepsrjómasósu og kartöflugratíni

Aðferð:

  1. Setjið sinnep, ólífuolíu, sojasósu, sítrónusafa, rósmarín og svartan pipar saman í krukku eða ílát sem hentar undir töfrasprota.
  2. Blandið allt vandlega saman með töfrasprota þannig að áferðin minni á majónessósu.
  3. Skolið og þerrið lærið. Skerið umframfitu af lærinu.
  4. Takið 2 matskeiðar af maríneringunni fyrir sósuna og smyrjið restinni af henni á lærið og látið marínerast í að minnsta kosti 2-3 tíma eða jafnvel yfir nótt.
  5. Hitið ofninn í 175°C og stingið kjöthitamæli í þykkasta hlutann.
  6. Bakið lærið í ofninum þar til kjarnhiti nær 68°C sem er miðlungssteikt.
  7. Takið það þá út og látið það hvíla í um það bil 15 mínútur áður en það er skorið svo það fái að jafna sig.

Kartöflugratín

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C blástur.
  2. Penslið steypujárnspönnu eða eldfast mót með ólífuolíu.
  3. Skerið kartöflur, sætu kartöfluna og gulrætur í þunnar sneiðar.
  4. Ef þið eigið mandólín er gott að nota það.
  5. Skerið Dala Höfðingja í sneiðar.
  6. Saxið laukinn í mátulega bita og saxið hvítlaukinn smátt.
  7. Setjið grænmetið í skál og dreifið örlitlu af ólífuolíu yfir, um það bil hálfri matskeið.
  8. Kryddið grænmetið og veltið í skálinni, gott er að nota tvær skeiðar til að hjálpa til við verkið.
  9. Raðið grænmetinu sitt á hvað á pönnuna og stingið ostsneið inn á milli með passlegu millibili.
  10. Passið að laukurinn fari líka með grænmetinu og stráið svo restinni af honum úr skálinni yfir grænmetið.
  11. Blandið saman grænmetissoði, mjólk og rjóma og hellið yfir grænmetið. Hyljið pönnuna eða fatið með álpappír.
  12. Bakið gratínið í 50 mínútur.
  13. Takið þá gratínið út, stráið osti yfir og bakið áfram í 10-15 mínútur.
  14. Gratínið er tilbúið þegar grænmetið er mjúkt í gegn og osturinn orðinn gylltur og fallegur.

Sinnepsrjómasósa

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið í potti og setjið laukinn út í.
  2. Steikið laukinn þar til hann er farinn að gyllast, gott er að nota frekar vægari hita svo laukurinn brenni ekki.
  3. Setjið soð saman við ásamt marineringu og sojasósu. Völlu finnst gott að setja 1 tsk. í einu af maríneringunni og smakka til.
  4. Sjóðið niður soðið um 1/3.
  5. Bætið við salti og pipar eftir smekk og setjið smávegis af sósujafnara og sósulit ef þið viljið fá sósuna þykkari og dekkri, þessu má þó alveg sleppa.
  6. Berið sósuna fram með lambalærinu og grænmetisgratíninu.

 

til baka