þri. 22. apr. 2025 21:25
Halla Tómasdóttir sækir útför páfans.
Halla sækir útför páfans í Róm

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, mun sækja útför páfans í Róm um helgina.

Frá þessu greinir hún í færslu á Facebook. 

Frans páfi lést í gærmorgun, á annan í páskum, 88 ára að aldri. Útför hans verður gerð frá Péturskirkju í Róm á laugardaginn klukkan tíu að staðartíma. Fjölmargir þjóðarleiðtogar munu sækja útförina. 

Í færslu Höllu á Facebook fer hún einnig yfir mistökin þegar hún minntist „Pope Francis“ í minningarkveðju sem hún birti í gær vegna fráfalls páfans.

Segist hún hafa ætlað að „tagga“ opinbera Instagram-síðu páfans á Instagram. Það tókst þó ekki en að sögn forsetans var hún að brúna kartöflur á meðan færslan var skrifuð og því að mörgu að huga.

Útför Frans páfa verður á laugardaginn

Halla ætlaði að tagga „Pope Francis“

Axlar ábyrgð og þakkar þeim sem standa vörð um íslenska tungu

„Ætlun mín var að tengja við opinbera síðu Frans páfa á Instagram svo ég sló inn Pope Francis og fékk upp @franciscus. Ég bað eiginmanninn (sem var að taka út hrygginn) að kanna hvort um rétta síðu væri að ræða á meðan ég kláraði kartöflurnar og færsluna í nokkrum flýti áður en mamma kom í mat. Í látunum fór að-merkið (@) forgörðum og því fór sem fór,“ skrifar Halla. 

Segist hún axla fulla ábyrgð á mistökum sínum og að hún hafi breytt færslunni um leið og hún hafi fengið ábendingu um mistökin. 

„Ég þakka ykkur sem standið vaktina og minnið okkur öll á mikilvægi þess að við stöndum saman vörð um okkar einstöku tungu. Ég er með ykkur í liði. Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök, ég er mannleg og vil vera það því ég trúi að af mistökunum lærum við mest og minnst lærum við þegar við teljum sjálfum okkur og öðrum trú um að við vitum allt best,“ skrifar Halla jafnframt. 

 

Halla minnist „Pope Francis“

 

til baka