Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, telur ekki að trans konur séu konur.
Þetta upplýsir talsmaður forsætisráðherrans en nýlega úrskurðaði Hæstiréttur Bretlands að samkvæmt jafnréttislögum væri kona aðeins skilgreind út frá líffræðilegu kyni.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Orðið kona vísi til líffræðilegs kyns
Skipti um skoðun
Árið 2022 lýsti Starmer þeirri skoðun að trans konur væru konur, og bætti við að sú afstaða væri ekki aðeins hans persónulega heldur einnig í samræmi við lög.
Segir talsmaður hans að Hæstiréttur hafi nú tekið skýrt fram hver skilgreiningin á konu væri, og virðist því afstaða forsætisráðherrans hafa breyst í kjölfar niðurstöðu dómsins.
Talsmaður hans lagði áherslu á að Starmer hefði ítrekað sagt, áður en dómurinn féll, að kona væri „fullorðinn einstaklingur af kvenkyni“.
Gömul ummæli sýna ólíkar skoðanir
Breska ríkisútvarpið rifjar upp ummæli Starmers annars vegar frá árinu 2023 þar sem hann sagði 99,9% kvenna ekki vera með typpi.
Hins vegar rifjar BBC upp ummæli frá árinu 2024 þar sem ráðherrann sagði fyrrverandi þingkonu Verkamannaflokksins, Rosie Duffield, hafa rétt fyrir sér þegar hún sagði að „aðeins konur hefðu leggöng“.
Starmer hafði árið 2021 gagnrýnt þá skoðun Duffield og sagt hana hafa rangt fyrir sér hvað þessi mál varðar.
Dapurlegur dómur fyrir hinsegin fólk
Ættu að njóta sömu virðingar og aðrir
Kemi Badenoch, formaður Íhaldsflokksins, hefur gagnrýnt viðbrögð Verkamannaflokksins og sakað Starmer um að þurfa dóm Hæstaréttar til að láta í ljós þessa nýju skoðun.
Bridget Phillipson, menntamálaráðherra Bretlands, sem einnig er í Verkamannaflokknum, fagnaði því sem hún kallaði „aukinn skýrleika“ og sagði að ríkisstjórnin myndi vinna að því að „vernda rými sem væru eingöngu ætluð einu kyni, sem væri byggt á líffræðilegu kyni“.
Niðurstaða Hæstaréttar heimilar það að útiloka trans konur úr rýmum eingöngu ætluðum konum, skv. skilgreiningu dómstólsins, jafnvel þótt þær hafi kynleiðréttingarvottorð, svo framarlega sem sú útilokun teljist „hófleg“.
Eiga skilið sömu virðingu
Ítrekaði talsmaður forsætisráðherrans þó að Starmer hefði ætíð verið skýr á því að trans fólk ætti að njóta sömu virðingar og aðrir.
Ummæli Stamers og Phillipson eru vís til að falla í grýttan jarðveg innan Verkamannaflokksins en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er m.a. talað um að auka réttindi trans fólks.