þri. 22. apr. 2025 18:06
Frá verkefni dagsins.
Komu fiskibáti til aðstoðar suður af Snæfellsnesi

Áhafnir bjögunarskipanna Bjargar í Rifi og Jóns Gunnlaugssonar á Akranesi voru kallaðar út á tíunda tímanum í morgun vegna fiskibáts sem hafði misst vélarafl suður af Snæfellsnesi. Varðskipið Freyja var einnig skammt frá og var því snúið við til aðstoðar. 

Tveir voru um borð í fiskibátnum en þeir voru ekki í neinni hættu þar sem þeir höfðu varpað akkeri fyrir borðið.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.

Varðskipið með annan bát í drætti

Þar segir að Björgunarskipið Björg hafi komið að fiskibátnum rétt fyrir klukkan tólf og komið taug á milli. Stefnan hafi svo verið sett á Akranes þar sem draga átti bátinn í höfn. 

„Um klukkustund síðar mættust Björg og Jón Gunnlaugsson, sem tók við drætti áfram til Akraness. Björg sneri til heimahafnar á Rifi og var komin þangað rétt upp úr 15 í dag,“ segir í tilkynningunni. 

Áætlað er að Jón Gunnlaugsson renni í höfn á Akranesi með fiskibátinn á sjötta tímanum í dag. Áhöfn skipsins á þó eitt verkefni eftir í dag en varðskipið Freyja er með annan bát í drætti, rétt vestur af Akranesi, sem Jón Gunnlaugsson mun sækja og draga inn til hafnar. 

til baka