mið. 23. apr. 2025 15:18
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir formaður dómnefndar, og verðlaunahafanir Elías Rúni, Mars Proppé, Rán Flygenring og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir í tröppum Höfða.
Lóa Hlín, Rán, Mars og Elías Rúni verðlaunuð

​Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025 voru veitt í Höfða rétt í þessu. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur afhenti verðlaunin sem veitt eru í þremur flokkum.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hlaut verðlaunin í flokki frumsaminna verka fyrir Mamma sandkaka sem Salka gefur út, Rán Flygenring í flokki myndlýsinga fyrir Tjörnina sem Angústúra gefur út og Elías Rúni og Mars Proppé í flokki þýðinga fyrir Kynsegin sem Salka gefur út.

Í dómnefnd sátu Sigrún Margrét Guðmundsdóttir formaður, skipuð af Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Arngrímur Vídalín, skipaður af Rithöfundasambandi Íslands og Bergrún Adda Pálsdóttir, skipuð af Félagi íslenskra teiknara.

  

Besta starf í heimi

„Það er mikill heiður að hljóta ein elstu barnabókaverðlaun landsins og gaman að fá þessa hvatningu enda er þetta ekki starf sem maður velur sér fyrir peninga og aura. Þetta er mjög heimskulegt starf að velja sér upp á praktísku hlutina en besta starf í heimi hvað varðar sjálfa vinnuna. Eins er það einstaklega gefandi að hitta og lesa fyrir krakka sem finnst bækurnar skemmtilegar,“ segir Lóa Hlín sem einnig hlaut verðlaunin árið 2023 fyrir bókina Héragerði: ævintýri um súkkulaði & kátínu.

Í umsögn dómnefndar um Mömmu sandköku segir:

„Lóa Hjálmtýsdóttir er enginn nýgræðingur í því að sprengja fólk á öllum aldri úr hlátri og Mamma sandkaka er þar engin undantekning. Bókin er sjálfstætt framhald af Mamma kaka, sem er afskaplega fyndin bók, en hér gengur Lóa jafnvel lengra í húmornum. Hér ríkir eintóm gleði og foreldrar fá talsvert fyrir sinn snúð á sama tíma og börnin.“

 

 

Mikil hvatning

„Þetta er mikil hvatning, eins klisjulegt og það kann að hljóma. Þó maður hafi áður fengið verðlaun þá er þetta pepp til þess að dúndra í næstu bók og trúa á það sem maður er að gera,“ segir Rán en þetta er í fimmta sinn sem hún hlýtur verðlaunin.

Í umsögn dómnefndar um bókina Tjörn eftir Rán segir:

„Í Tjörninni sjáum við sannkallað ævintýri í garðinum þar sem er svo svakalega margt í gangi. Við hvern lestur þá sýna myndirnar okkur eitthvað nýtt og á sama tíma gefa þær sögunni svo mikla dýpt. Teikningarnar flæða, raðast í röð, fylla upp í rýmið og stundum geta þær meira að segja stöðvað tímann. Rán hefur hér gefið okkur kunnuglegan en jafnframt ævintýranlegan heim.

 

Þýðingar mikilvægar frá vinkli hinsegin-bókmennta

 „Frá vinkli hinsegin-bókmennta þá er mjög skýrt að þýðingar eru mikilvægar. Við eigum afskaplega fallegt tungumál sem hefur brugðist skjótt við þörfinni á allskonar nýyrðum í tengingu við hinsegin raunveruleika og það væri synd að koma þeim ekki í notkun víðar en bara í talmáli. Þetta á sérstakega við um barnabókmenntir þar sem börnin eiga erfiðara en fullorðnir með að afla sér sjálf fræðslu um fjölbreytileikann á netinu og á öðrum tungumálum,“ segir Mars.

 Í umsögn dómnefndar um Kynsegin segir:

„Elías Rúni og Mars Proppé þýddu skáldsöguna Kynsegin, sjálfsævisögu þar sem Maia Kobabe segir frá því hvernig hín fann sjálft sig eftir margra ára sjálfsefa og óvissu. Þessi teiknimyndasaga er listilega gert verk um mikilvægt málefni og hefur án efa verið áskorun fyrir þýðendurna tvo sem leystu ýmisskonar vandamál af lagni og virðingu fyrir efninu.“

 

 

Viðtöl við verðlauna­haf­a má finna í menn­ing­arsíðum morg­undags­ins á morg­un, fimmtu­dag.

 https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/14/15_baekur_tilnefndar/

til baka