þri. 22. apr. 2025 17:09
„Skýr afstaða okkar er að það eigi ekki að slá aðild Úkraínumanna út af borðinu í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir Þorgerður,
Eigi „alls ekki“ að slá NATO-aðild Úkraínu af borðinu

Það kemur ekki til greina að mati utanríkisráðherra að slá mögulega NATO-aðild Úkraínumanna af borðinu, sem Trump-stjórnin er sögð gera til að semja um frið milli Rússlands og Úkraínu.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal greindi frá því í gær að rík­is­stjórn Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta hefði lagt fram til­lögur til að stilla til friðar á milli Rúss­lands og Úkraínu sem útilokuðu meðal annars aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO).

„Við eigum eftir að sjá þessar tillögur,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is en mögulega verður hulunni svipt af þeim á leiðtogafundi í Lundúnum á morgun.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/21/tillogur_trumps_engin_nato_adild_fyrir_ukrainu/

„Alls ekki“

Marco Ru­bio, ut­an­rík­is­ráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa kynnt hug­mynd­ina um að útiloka NATO-aðild Úkraínu sem hluta af friðartil­lögupakka í síðustu viku, á fundi í Par­ís með úkraínsk­um og evr­ópsk­um emb­ætt­is­mönn­um.

Spurð út í þessar hugmyndir svarar Þorgerður Katrín:

„Ísland hefur, alveg eins og aðrar Norðurlandaþjóðir og langflestar NATO-þjóðir, undirstrikað að það sé Úkraínumanna að ákveða hvort þeir gangi í NATO og það eigi alls ekki að slá þá hugmynd af borðinu.“

Þorgerður segir að skoða þurfi þó heildarsamhengið. „Við höfum eins og aðrar Norðurlandaþjóðir stutt meðal annars friðarviðleitanir Bandaríkjanna en við eigum eftir að sjá hvað er í þessum blessaða pakka en svo tökum við afstöðu til þess,“ segir hún.

„En skýr afstaða okkar er að það eigi ekki að slá aðild Úkraínumanna út af borðinu í fyrirsjáanlegri framtíð.“

Sjáum við tillögurnar á morgun?

Banda­rík­in bíða nú viðbragða frá Úkraínu­mönn­um, en þeirra er vænst á fundi með úkraínsk­um og evr­ópsk­um emb­ætt­is­mönn­um í Lund­ún­um á morgun.

Íslendingar eiga ekki fulltrúa á fundinum, að sögn Þorgerðar, ekki frekar en aðrar Norðurlandaþjóðir.

Þar má þó búast við Úkraínumönnum, Frökkum, Bandaríkjamönnum og auðvitað gestgjöfunum, Bretum, að sögn Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta á X

Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti óvænt yfir „páskavopna­hléi“ í Úkraínu sem átti að standa fram yfir páskadag. Úkraínumenn sögðust ætla að virða hléið en ásakanir gengu svo á víxl um brot á því vopnahléi.

Pútín gaf á dögunum til kynna að hann væri op­inn fyr­ir tví­hliða viðræðum við Selenskí.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/22/putin_leggur_til_ad_russar_opni_fyrir_beinar_vidrae/

 

til baka