Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, eini kaþólski ráðherrann í sögu íslenska lýðveldisins, syrgir Frans páfa. Hún segist vona að arftaki hans hafi eins breiðan faðm og Frans, sem lést í gærmorgun, 88 ára að aldri, eftir tólf ár á páfastóli.
Leiðtogar um allan heim hafa minnst hans.
„Hryggð og sorg,“ segir Þorgerður Katrín utanríkisráðherra í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við fráfalli trúarleiðtogans, en ólíkt stærstum hluta Íslendinga tilheyrir Þorgerður ekki þjóðkirkjunni enda ekki mótmælendatrúar.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/21/thjodarleidtogar_minnast_frans_pafa/
Mikil eftirsjá
Hún segist sjá eftir öflugum páfa með breiðan faðm. Hún segir að hann sé með öflugri páfum sem kaþólikkar hafa átt á síðari tímum, ásamt Jóhannesi Páli páfa öðrum.
„Hann dró fram mikilvægi þess að standa með þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu, með lítilmagnanum. Hann var hógvær, friðarins maður og ég held að við sjáum það á öllum viðbrögðum helstu leiðtoga hversu mikils hann var metinn,“ segir Þorgerður.
„Hann sló ákveðna tóna sem voru mjög mikilvægir fyrir marga hópa í samfélaginu, þannig að það er mikil eftirsjá eftir þessum páfa, þessum góða manni.“
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi
Þorgerður kveðst vona að næsti páfi verði „jafn framsýnn og Frans páfi og haldi áfram þessum breiða faðmi sem hann hefur breitt út“.
Þá bendir hún á að Frans hafi verið friðarmaður. Hann hafi jafnvel brýnt fyrir Ísraelsmönnum að stilla til friðar á Gasaströndinni. „Að passa upp á börn, konur, þá sem minna mega sín í öllum samfélögum,“ bætir hún við.
„Frans páfi undirstrikaði það að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“