Rapparinn Kendrick Lamar er nýtt andlit franska hátískuhússins Chanel og stjarnan í nýrri sólgeraugnaherferð frá merkinu. Þetta hefur vakið mikla athygli þar sem Chanel er ekki með herraföt en það hefur þó ekki stoppað Lamar sem þykir mikil tískufyrirmynd núna og hefur blandað herra- og dömufötum saman.
Skartaði lykilflík vortískunnar og fór létt með það
„Chanel á sér tímalausa sögu og það er eitthvað sem ég stend fyrir. Þar sem þau framleiða ekki herraföt þá vissi ég að það yrðu að vera gleraugu,“ sagði Lamar um samstarfið í fréttatilkynningu.
Lamar sást á tískuvikunni í París fyrr á árinu klæddur Chanel frá toppi til táar, í ljósum tweed-jakka, víðum svörtum Chanel-gallabuxum og með hálsklút frá tískuhúsinu um höfuðið. Það verður því áhugavert að fylgjast með klæðaburði hans næstu mánuði.