Böðvar Þór Eggertsson hætti að klippa hár fyrir um tveimur árum þegar hann lagði skærin á hilluna. Hann er þekktur í íslensku samfélagi sem Böddi á Space en hann rak þá hárgreiðslustofu um langa hríð. Þegar hann lagði skærin á hilluna fór hann í nám til þess að verða löggiltur fasteignasali.
Nú er Böðvar útskrifaður en í Lögbirtingablaðinu kemur fram að Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hafi gefið út löggildingu til Böðvars Þórs Eggertssonar til þess að vera fasteigna-og skipasali og var leyfið gefið út 14. apríl.
Haustið 2023 birtist viðtal við Böðvar á Smartlandi þar sem hann fór yfir feril sinn, sínar helstu áskoranir, vonir og væntingar. Í viðtalinu sagði hann frá því hvernig líf hans hafi breyst eftir að hann fékk ADHD greiningu.
„Áður en ég fékk greiningu var ég týpan sem fannst enginn vera fullkominn nema ég sjálfur. Ef það kom upp vandamál í sambandinu hjá mér þá var það alltaf henni að kenna – ekki mér. Ef það voru vandamál í vinnunni þá var það hinum að kenna – ekki mér. Stærsta breytingin við það að fá greiningu og fá að vita hvernig þetta virkaði var að ég horfði inn á við og áttaði mig á því að ég væri rasshausinn. Það sem ég var að kenna hinum um var mér að kenna. Eftir að ég fékk greininguna opnuðust augu mín og ég fór að byggja mig upp og nota þetta til að styrkja mig,“ sagði Böðvar í viðtalinu á Smartlandi:
Fékkstu lyf?
„Nei, ekki strax. Fyrst fór ég í þerapíu til þess að reyna að læra að lifa með ADHD. Þetta var svona 12 spora kerfi. Ég var í afneitun að ég væri með ADHD. Þerapistinn vildi ekki að ég færi á lyf fyrr en ég væri búinn að horfa inn á við og reyna að skilja hvað væri að gerast. Þessi þerapía stóð yfir í 14 vikur og ég fór úr því að keyra sjálfan mig út á 200 km hraða og fór niður í 50 km hraða. Það breyttist margt. Ég fór að átta mig á aðstæðum þegar ég væri að skjótast upp. Á þessum 14 vikum áttaði ég mig á því hvernig ég gæti nýtt ADHD á jákvæðan hátt. Ég hafði mikla orku og fór að nýta hana öðruvísi. Ég minnkaði áfengisneyslu því það fóru of margir dagar í vanlíðan tengda henni.“
https://www.mbl.is/smartland/frami/2023/11/03/eg_thurfti_alltaf_ad_vera_flottastur_og_red_ekkert_/
Smartland óskar Böðvar til hamingju með réttindin!