Þá er hægt að segja að Kylie Jenner geti andað léttar þegar tengdamóðir hennar, Nicole Flender, gefur sambandi þeirra Timothée Chalamet tvo upprétta þumla.
Fasteignasalinn Flender var í viðtali við fasteignatímaritið Curbed á mánudag þar sem hún kom aðeins inn á samband sonar síns við Jenner.
„Ég verð að segja að hún er yndisleg,“ sagði Flender um Jenner. „Hún er mjög góð við mig.“
Í viðtalinu kom Flender einnig inn á fasteignakaup sonarins þegar hann keypti 11 milljóna dollara fasteign í Beverly Hills, rétt hjá heimili Jenner.
„Spurði hann mig ráða? Nei,“ sagði hún á léttum nótum. „Hann sagði: Gettu hvað? Ég keypti hús.“
Flender er búsett í New York og segist alls ekki ætla að færa sig um set til að vera nær börnunum sínum, en dóttir hennar, Pauline Chalamet, fjárfesti nýverið í eign í París. „Myndir þú vilja að mamma þín elti þig út um allt? Mig langar að geta heimsótt þau,“ sagði hún.
Fransk-ameríski leikarinn Chalamet byrjaði ferilinn sem unglingur í sjónvarpsþáttunum Homeland (2012). Eftir nokkur ár sem aukaleikari í ýmsum kvikmyndum tók hann að sér veigameiri hlutverk í kvikmyndum á borð við Dune (2021) og Dune Part Two (2024). Svo má segja að hann hafi náð enn lengra með hlutverki sínu sem tónlistarmaðurinn Bob Dylan í kvikmyndinni A Complete Unknown (2024), en hann kom einnig að framleiðslu þeirrar myndar og hefur hann hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir leik sinn í myndinni.
https://www.mbl.is/folk/frettir/2025/02/19/chalamet_og_jenner_skortudu_eins_hringum/