fim. 24. apr. 2025 07:53
Timothée Chalamet og Kylie Jenner á Óskarsverðlaunahátíðinni í mars.
Mamman samþykkir Kylie Jenner

Þá er hægt að segja að Kylie Jenner geti andað léttar þegar tengdamóðir hennar, Nicole Flender, gefur sambandi þeirra Timothée Chalamet tvo upprétta þumla.

Fasteignasalinn Flender var í viðtali við fasteignatímaritið Curbed á mánudag þar sem hún kom aðeins inn á samband sonar síns við Jenner. 

„Ég verð að segja að hún er yndisleg,“ sagði Flender um Jenner. „Hún er mjög góð við mig.“

 

Í viðtalinu kom Flender einnig inn á fasteignakaup sonarins þegar hann keypti 11 milljóna dollara fasteign í Beverly Hills, rétt hjá heimili Jenner. 

„Spurði hann mig ráða? Nei,“ sagði hún á léttum nótum. „Hann sagði: Gettu hvað? Ég keypti hús.“

Flender er búsett í New York og segist alls ekki ætla að færa sig um set til að vera nær börnunum sínum, en dóttir hennar, Pauline Chalamet, fjárfesti nýverið í eign í París. „Myndir þú vilja að mamma þín elti þig út um allt? Mig langar að geta heimsótt þau,“ sagði hún.

Fransk-ameríski leikarinn Chalamet byrjaði ferilinn sem unglingur í sjónvarpsþáttunum Homeland (2012). Eftir nokkur ár sem aukaleikari í ýmsum kvikmyndum tók hann að sér veigameiri hlutverk í kvikmyndum á borð við Dune (2021) og Dune Part Two (2024). Svo má segja að hann hafi náð enn lengra með hlutverki sínu sem tónlistarmaðurinn Bob Dylan í kvikmyndinni A Complete Unknown (2024), en hann kom einnig að framleiðslu þeirrar myndar og hefur hann hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir leik sinn í myndinni.

https://www.mbl.is/folk/frettir/2025/02/19/chalamet_og_jenner_skortudu_eins_hringum/

Page Six

til baka