Dollarinn veiktist en gullverð náði methæðum eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hellti sér yfir seðlabankastjóra landsins um helgina. Evrópskir hlutabréfamarkaðir, þar á meðal sá íslenski, lækkuðu við opnun í morgun.
Trump gagnrýndi Jerome Powell seðlabankastjóra í gær, annan í páskum, fyrir að lækka ekki stýrivexti og kallaði bankastjórann „meiriháttar aula“.
Í framhaldi af því fóru bandarískir fjárfestar að hafa áhyggjur af áhrifum Trump yfir seðlabankanum. Í kjölfarið fylgdi fall á bandarískum hlutabréfamarkaði, þar sem bandarískar vísitölur lækkuðu um ca. 2,4%.
Bandaríkjadalurinn veiktist einnig og hefur ekki verið veikari í þrjú ár. Trump sagðist í síðustu viku trúa því að Powell myndi hætta í starfinu sínu. Bankastjórinn neitaði því en að sögn Reuters er óljóst hvort Trump geti rekið seðlabankastjóra landsins.
Og svo vaknaði Evrópa
Tollaútspil Trump-stjórnarinnar hefur auk þess leikið fjárfesta grátt. Fjárfestar mega því lítið við enn frekari óvissu.
Þegar asískir og evrópskir markaðir opnuðu í morgun eftir páskafrí sýndu þeir allir merki um örlitla lækkun. Helstu vísitölur lækkuðu aftur á móti ekki um meir en 0,5%.
Úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar hefur aftur á móti fallið um rúm 2% frá opnun markaða í morgun, samkvæmt Keldunni. Íslensk félög hafa lækkað um allt að 9% í dag.
Gullæði?
Vísitala dollarans hefur nú jafnað sig örlítið og situr nú 98,55.
En vegna veikleika bandaríkjadals, aukinnar eftirspurnar eftir öruggum höfnum, hefur gullverð náð methæðum, 3.500,05 dollurum.
Bandaríski markaðurinn opnar aftur kl. 13.30 að íslenskum tíma.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sagður ætla að gefa út hagspá í dag sem gæti sýnt hvaða lönd verða þyngst fyrir barðinu á tollum Trump-stjórnarinnar. Í dag tilkynnti Trump-stjórnin um enn annan toll, þar sem hún tilkynnti 3.521% toll á sólskildi frá Suðaustur-Asíu, að sögn BBC.