Mitchell O’Brien og Breanne Sika ætluðu sér aðeins að eiga rólegan dag saman við Michiganvatn og leita að fallegum steinum. Hvorugt þeirra bjóst við því að dagurinn myndi enda með björgun úr kviksandi – og því síður að þau myndu kalla hvort annað kærasta og kærustu áður en yfir lyki.
O’Brien, 37 ára, og Sika, 36 ára, höfðu verið vinir í tvö ár en höfðu nýlega farið að velta fyrir sér hvort samband þeirra gæti þróast yfir í eitthvað meira. Bæði höfðu áhuga, en hvorugt vissi af því – fyrr en sameiginlegur vinur spurði einfaldlega hvers vegna þau væru ekki löngu orðin par.
Þann 12. apríl fóru þau á Van’s Beach í Leelanau-sýslu, norðan við Traverse City, í leit að fallegum steinum sem finnast gjarnan við strendur Michiganvatns. Nýlega hafði verið lokið við dælingu úr höfninni nálægt ströndinni en engin viðvörunarskilti voru á staðnum, að sögn O’Briens.
Sika benti á stað við vatnið sem henni fannst líta út fyrir að vera varasamur, en O’Brien misskildi hana og hélt hún ætti við annan blett. Hann gekk því óvart beint út á svæðið og sökk nær samstundis niður í sandinn. Á nokkrum sekúndum var hann fastur upp að mitti.
Hann náði rétt svo að grípa símann og lyklana áður en sandurinn þéttist utan um annan fótinn. Hinum fætinum náði hann að halda uppi í hálfsitjandi stöðu, en hann var algjörlega fastur.
Sika, sem hafði aldrei séð kviksand áður, lýsti honum sem blöndu af sandi og hlaupi. Hún sagði aðstæðurnar hafa verið hræðilegar og óttaðist raunvar um líf O'Briens.
Í um fimmtán mínútur reyndi O’Brien að losa sig en án árangurs. Öldurnar skullu á baki hans og fylltu strax upp í holurnar sem hann gróf. Sika reyndi að hjálpa honum en fljótlega áttuðu þau sig á því að þau þyrftu á hjálp fagaðila að halda og hringdu bæði í neyðarlínuna.
Í símanum sagði O’Brien að kærastan hans væri einnig að hringja og hún, nokkrum metrum frá, tilkynnti neyðarlínunni að kærastinn hennar væri fastur í sandinum. Þetta var í fyrsta skipti sem þau notuðu þessa titla hvort um annað.
Slökkvilið mætti á staðinn innan fimm mínútna og náðu loks að losa O'Brien með herkjum.
O’Brien slapp ómeiddur en var stirður, örmagna og skítkaldur eftir björgunina. Hendur hans voru dofnar eftir að hafa mokað ískaldan sand og vatn í langan tíma. Hitinn var aðeins um 5 gráður og vatnið rétt undir frostmarki, samkvæmt bandarísku veðurstofunni.
Viku áður höfðu þau farið á sitt fyrsta stefnumót – en nú voru þau orðin par með ansi ótrúlega sögu í farteskinu.
Hér má sjá umfjöllun bandaríska miðilsins NBC news um málið.