Það er ekki hægt að segja að fólk fái innilokunarkennd í þessari 66 fm íbúð við Garðatorg. Það er óvenjuhátt til lofts í íbúðinni eða um þrír metrar sem er miklu meira en gengur og gerist. Í íbúðinni eru svalir sem snúa í suður og eru þær 5,3 fm.
Íbúðin er vel skipulögð og er hver einasti fermetri nýttur til fulls. Í íbúðinni, sem er í blokk sem reist var 2017, er eitt svefnherbergi sem státar af góðu skápaplássi. Í íbúðinni er baðherbergi með opinni sturtu og upphengdu salerni og er pláss fyrir þvottavél og þurrkara á baðherberginu.
Hvítt gler á milli skápa
Eldhús og stofa eru í sameiginlegu rými.
Í eldhúsinu er Schmidt-innrétting frá Parka sem er höldulaus. Það er pláss fyrir allt það helsta í eldhúsinnréttingunni eins og stóran ísskáp, uppþvottavél og örbylgjuofn. Tækin eru frá AEG. Á milli skápa er hvítt gler sem gefur eldhúsinu snyrtilegt yfirbragð.
Heimilið er innréttað með nútímalegum húsgögnum og fallegum ljósum.