þri. 22. apr. 2025 13:17
Bókin eftir Flóka Larssen hlaut verðlaun í flokki heimildarmynda.
Kátir verðlaunahafar á Stockfish

Alþjóðlegu kvikmynda- og bransahátíðinni Stockfish lauk nýverið en þetta var í ellefta sinn sem hátíðin er haldin í Bíó Paradís.

Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum fyrir íslenskar stuttmyndir og tvenn heiðursverðlaun.

 

Sigismondi og Dóra heiðraðar

Verðlaun hlutu eftirtaldar myndir; Bókin eftir Flóka Larssen í flokki heimildamynda, Í takt eftir Hönnu Huldu Hafþórsdóttur, sem einnig var handhafi Evu Maríu Daníels verðlaunanna sem eru veitt í minningu framleiðandans Evu Maríu Daníelsdóttur, og Godspeed eftir Klāvs Liepiņš í flokki tilraunakenndra mynda.

Þá hlaut tónlistarmyndbandið „Myndi Falla“ með Úlfi Úlfi, í leikstjórn Magnúsar Leifssonar, verðlaun í flokki tónlistarmyndbanda.

 

Að auki hlutu tvær myndir sérstaka viðurkenningu; heimildarmyndin Ég er bara Elma eftir Elmu Dís Davíðsdóttur og leikna myndin Merki Í leikstjórn Rúnars Inga Einarssonar.

 

Heiðursverðlaunahafar hátíðarinnar voru kanadíska/ítalska leikstýran Floria Sigismondi og Dóra Einarsdóttir búningahönnuður en báðar voru heiðraðar fyrir ómetanlegt framlag sitt til kvikmyndagerðar.

 

 

Ítalskur fókus 

Aðsókn á hátíðina var framar björtustu vonum en frítt var inn og í fyrsta skipti frá upphafi var ákveðið að bjóða bíógestum að greiða eftir getu.

 

Þá var hátíðin með ítalskan fókus en á sama tíma var súrrealískur andi yfir hátíðinni, þar sem David Lynch var heiðraður með pallborði og styttu sem var til sölu í Bíó Paradís.

Boðið var upp á fjölda viðburða og námskeiða á vegum hátíðarinnar, þ.m.t. málþing um fötlun og inngildingu í bíó, táknmálstúlkaðar og sjónlýstar kvikmyndir, handritasmiðju og meistaraspjöll, bæði við heiðursgestinn Floriu Sigismondi en líka við Clare Langan sem hefur um áratugabil gert listrænar stuttmyndir á Íslandi.

 

Hátíðin var með viðburði í Hafnar.haus og tónlistarmiðstöð þar sem fullt hús var í pallborði um kvikmyndatónlist og samningagerð.

Lokahóf hátíðarinnar fór svo fram á snekkjunni Amelíu Rós í boði Seatours þar sem gestum hátíðarinnar var boðið í siglingu undir rauðu tungli.

til baka