Sumardagurinn fyrsti var til umræðu í morgunútvarpsþættinum Ísland vaknar, þar sem Hjálmar Örn hélt uppi stuðinu ásamt Þór Bæring, í fjarveru Bolla Más.
Þór greindi frá því að hann fengi enn stundum sumargjöf frá foreldrum sínum, en Hjálmar sagðist aldrei hafa fengið slíka gjöf sjálfur og gæfi börnunum sínum sjaldan sumargjöf. Stundum hafi þau þó fengið ódýra vatnsbyssu eða eitthvað í þeim dúr.
„Ég er ekki að fara í, eins og sumir, að gefa krökkunum iPhone í sumargjöf,“ sagði Hjammi.
Þór deildi einnig skemmtilegum fróðleiksmola og benti á að það hafi tíðkast lengur hér á landi að gefa sumargjafir en jólagjafir.
Þeir félagar opnuðu fyrir símann í þættinum og buðu hlustendum að tjá sig um málið. Þar kom í ljós að margir hafi bæði fengið sumargjafir frá unga aldri og haldið hefðinni áfram með eigin börnum og barnabörnum – allt frá brenniboltum yfir í svarta kínaskó úr Hagkaup. Eins sagði ein amma að barnabörnin hennar fengju sundföt í sumargjöf.
Hér má hlusta á umræðuna í heild sinni.