þri. 22. apr. 2025 21:00
Pedró og Dagur Pétursson Pinós í eldhúsinu á veitingastaðnum La Barceloneta þar sem spænsku töfrarnir gerast.
„Paella er einkennisrétturinn okkar á La Barceloneta“

Veitingastaðurinn La Barceloneta hefur vakið mikla eftirtekt hér á landi og hefur meðal annars fengið viðurkenningu frá Spænska sendiráðinu fyrir matargerðina. Staðurinn er fallega hannaður með spænsku yfirbragði og þegar inn er komið er það eins og að vera kominn á lítinn tapasveitingastað á Spáni.

 

Fimm aðilar, þar af tvenn hjón, eiga og reka veitingastaðinn sem öll deila sameiginlegri ást á matarmenningu. Þetta eru Dagur Pétursson Pinós sem stýrir veitingastaðnum ásamt Zoe Sarsanedas, sem einnig leiðir hönnun hans og samskipti, síðan eru það Elma Backman og Albert Muñoz sem eru þaulvanir fagmenn með yfir áratugar reynslu af rekstri hins verðlaunaða veitingastaðar Matur og drykkur.

„Síðast og ekki síst er miðpunkturinn í eldhúsinu okkar matreiðslumaðurinn Pedro, sem er okkar ástsæli paella-meistari, en ástríða hans á mat færir hjarta Spánar í sérhvern rétt,“ segir Dagur með bros á vör.

 

Þýðir „Litla Barcelona“

Aðspurður segir Dagur að nafnið á staðnum eigi sér sögu og það sé engin tilviljun.

La Barceloneta er nafn á hverfi í Barcelona sem var upphaflega sjávarþorp og saga þess og sjávararfleifð er enn sýnileg í dag. Með tímanum varð þetta gamla fátæka sjávarþorp suðupottur matarmenningar, tónlistar sérstaklega rumba catalana-tónlistar – og lifandi dægurmenningar, þar sem innflytjendur alls staðar að frá Spáni settust þarna að við sjávarsíðuna. Þökk sé þessum menningarsamruna og nánu sambandi við hafið sem varð til þess að La Barceloneta varð að matarkistu borgarinnar, þekkt fyrir sitt ferska sjávarfang og klassíska tapasrétti. Rétt er að nefna að „La Barceloneta“ þýðir „Litla Barcelona“.

Þegar komið er inn á staðinn er ilmur í loftinu af spænskum réttum og upplifunin er eins og að vera komin til Spánar.

„Við einbeitum okkur að klassískum réttum sem þú finnur á litlum tapasbörum. Kjarninn á matseðlinum okkar er að sjálfsögðu paella, sem er í grunninn einkennisrétturinn okkar. Hráefni gegna lykilhlutverki í öllu sem við gerum: kolkrabbi, smokkfiskur, kóngarækjur og síðast en ekki síst hrísgrjónin. Við flytjum inn sérstök paella-hrísgrjón beint frá Spáni, grjón sem annars eru ekki fáanleg á Íslandi til að tryggja ósvikið bragð og áferð í hverjum bita,“ segir Dagur.

 

Himinlifandi með líflegu og hlýju stemninguna á staðnum

Viðtökur við staðnum hafa farið fram úr björtustu vonum þeirra. „Við vorum auðvitað vongóð um hlýjar móttökur. Við erum jafnframt öll mjög stolt af því að hafa sett á laggirnar ósvikinn spænskan veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Viðbrögðin hafa hins vegar farið langt fram úr björtustu væntingum okkar. Við erum í grunninn lítill veitingastaður og frá upphafi var markmið okkar að endurskapa tapasbar-stemninguna sem við þekkjum og elskum frá Spáni. Við erum algjörlega himinlifandi með líflegu og hlýlegu stemninguna sem við teljum okkur hafa byggt upp.

 

Besta hrósið í sjálfu sér sem við fáum er þegar fólk segir okkur að því líði eins og það sé komið aftur til Spánar. Eins og við segjum gjarnan á veitingastaðnum: „Við getum ekki fært þér sólina, en við getum fært þér matinn,“ segir Dagur að lokum og afhjúpar hér uppskriftina að vinsælustu sósu staðarins sem borin er fram með steiktum kartöflum.

 

Bravas-sósan vinsæla

Aðferð:

  1. Hitið ólífuolíuna á pönnu við meðalhita.
  2. Bætið söxuðum lauknum út í og ​​eldið þar til hann er mjúkur og hálfgagnsær (um það bil 5–7 mínútur).
  3. Bætið hvítlauknum út í og ​​eldið í 1 mínútu í viðbót.
  4. Hrærið reyktri papriku og cayenne (ef það er notað) út í og ​​eldið í 30 sekúndur.
  5. Bætið niður niðursoðnum tómötum, klípu af salti og örlítið af sykri til að koma jafnvægi á sýrustigið.
  6. Látið malla í 10–15 mínútur, hrærið af og til þar til sósan þykknar.
  7. Berið fram með steiktum kartöflum eða því sem hugurinn girnist.

 

 

til baka