Viðgerðum og yfirferð er nú að ljúka á uppsjávarskipinu Júpíter VE-161 sem að undanförnu hefur verið í dráttarbrautinni í Reykjavíkurhöfn. Skipið hét áður Jóna Eðvalds og var í eigu Skinneyjar-Þinganess (SÞ) hf. í Hornafirði.
Nýlega losaði fyrirtækið um þann hlut sinn og nú er skipið skráð eign Horneyjar hf. sem SÞ og Ísfélagið eiga í sameiningu.
https://www.mbl.is/200milur/frettir/2025/01/08/kaupa_jonu_a_400_milljonir/
Skipið er smíðað í Noregi árið 1975, er 1.742 brúttótonn og hefur verið í útgerð á Íslandi frá 2004. Reiknað er með að Júpíter verði rennt niður brautina í Slippnum við Mýrargötu nú í vikulokin. Þá strax verði stímið sett á Höfn.
„Hugsunin er að fyrirtækin hafi aukaskip ef þörf skapast,“ segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri Ísfélagsins. Júpíter geti nýst Ísfélaginu á loðnuvertíðum, þegar ná þarf miklum afla á skömmum tíma. Fyrir Hornfirðinga geti skipið komið sér vel við veiðar á makríl og síld.