Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur gefið til kynna að hann sé opinn fyrir tvíhliða viðræðum við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í fyrsta skipti síðan á fyrstu stigum stríðsins.
Í viðtali við rússneska ríkissjónvarpið í gær sagði Pútín að Rússar hefðu alltaf litið jákvæðum augum á hvers kyns friðarviðræður og sagðist hann vonast til þess að fulltrúar úkraínsku stjórnarinnar væru sama sinnis.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/21/tillogur_trumps_engin_nato_adild_fyrir_ukrainu/
Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði að ummæli Pútíns gæfu til kynna vilja til að taka þátt í beinum viðræðum við Úkraínu um að ráðast ekki á borgaraleg skotmörk.
Selenskí hefur ekki svarað beint ummælum Pútíns en hann segir að Úkraína sé reiðubúin í öll samtöl sem myndi tryggja öryggi óbreyttra borgara.
Engar beinar viðræður hafa átt sér stað á milli Rússa og Úkraínumanna frá því Rússar gerðu innrás í Úkraínu í febrúar 2022.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/21/russar_hefja_loftarasir_ad_nyju/
Áætlað er að Úkraína taki þátt í viðræðum við Bandaríkin og Evrópuríki í London í vikunni, eftir fund í París í síðustu viku þar sem leiðtogar ræddu leiðir til að binda enda á stríðið.
Tillaga Pútíns um beinar viðræður kemur eftir að báðir aðilar hafa sakað hvorn annað um að hafa rofið 30 klukkustunda „páskavopnahlé“ sem Pútín tilkynnti á laugardag, sem nú er útrunnið.