þri. 22. apr. 2025 06:43
Volodimír Selenskí og Vladimír Pútín.
Pútín leggur til að Rússar opni fyrir beinar viðræður við Úkraínu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur gefið til kynna að hann sé opinn fyrir tvíhliða viðræðum við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í fyrsta skipti síðan á fyrstu stigum stríðsins.

Í viðtali við rússneska ríkissjónvarpið í gær sagði Pútín að Rússar hefðu alltaf litið jákvæðum augum á hvers kyns friðarviðræður og sagðist hann vonast til þess að fulltrúar úkraínsku stjórnarinnar væru sama sinnis.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/21/tillogur_trumps_engin_nato_adild_fyrir_ukrainu/

Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði að ummæli Pútíns gæfu til kynna vilja til að taka þátt í beinum  viðræðum við Úkraínu um að ráðast ekki á borgaraleg skotmörk.

Selenskí hefur ekki svarað beint ummælum Pútíns en hann segir að Úkraína sé reiðubúin í öll samtöl sem myndi tryggja öryggi óbreyttra borgara.

Engar beinar viðræður hafa átt sér stað á milli Rússa og Úkraínumanna frá því Rússar gerðu innrás í Úkraínu í febrúar 2022.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/21/russar_hefja_loftarasir_ad_nyju/

Áætlað er að Úkraína taki þátt í viðræðum við Bandaríkin og Evrópuríki í London í vikunni, eftir fund í París í síðustu viku þar sem leiðtogar ræddu leiðir til að binda enda á stríðið.

Tillaga Pútíns um beinar viðræður kemur eftir að báðir aðilar hafa sakað hvorn annað um að hafa rofið 30 klukkustunda „páskavopnahlé“ sem Pútín tilkynnti á laugardag, sem nú er útrunnið.

 

 

 

 

 

 

til baka