Snorri Guðmundsson matgæðingur hjá Matur og myndir gerði þennan ómótstæðilega góða pastarétt á dögunum sem er þess virði að njóta á góðum þriðjudegi. Sósan rífur í og passar mjög vel með pastanu. Rauð paprika, balsamedik og chili gefa sósunni dýpt og smá hita á meðan tagliatelle-ið bindur allt saman.
Til að lyfta réttinum á hæstu hæðir setur Snorri burrata ost ofan á. Þetta er réttur sem á eftir að slá í gegn, bragðast ótrúlega vel og tekur skamman tíma að útbúa.
Upplagt er að bera réttinn fram með klettasalati og ferskum parmesanosti.
Papriku- og chili tagliatelle með burrata osti
Fyrir 2
- 2 msk. ólífuolía
- 2 hvítlauksgeirar, rifnir eða saxaðir
- 1 lítil rauð paprika, skorin í litla bita
- 1 lítið rautt chili (eða ½ ef þú vilt mildara), fínsaxað
- 400 g San marzano tómatar
- 1 tsk. provance kryddblanda
- 1 tsk. sykur
- Salt og pipar eftir smekk
- 1 tsk. balsamikedik (valfrjálst, gefur dýpt)
- 250 g ferskt tagliatelle
- 1 burrata ostur
- 1 lúka klettasalat
- Rifinn parmesan eftir smekk
- Ólífuolía og nýmalaður pipar til að toppa
Aðferð:
- Hitið olíuna í potti á meðalhita.
- Bætið við hvítlauk, papriku og chili og steikið þar til allt er mjúkt og ilmar. Tekur um 5 til 7 mínútur.
- Maukið tómatana eða kremjið þá í litla bita með höndunum.
- Bætið við tómötum, sykri, balsamikediki, provance kryddblöndu, salti og pipar.
- Látið malla í nokkrar mínútur eða þar til sósan þykkist svolítið.
- Hrærið í blöndunni af og til. Ef þið viljið sléttari áferð, getið þið maukað sósuna með töfrasprota.
- Smakkið til með salti.
- Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum.
- Geymið smá pastavatn til að þynna sósuna ef þarf.
- Blandið pastanum saman við sósuna og hrærið vel.
- Setjið pastað á diska, rífið burrata ostinn yfir, toppið með klettasalati, parmesan og smá ólífuolíu og nýmöluðum pipar.
- Berið fram og njótið.