Jökull Helgason hjá Classic Detail á Bíldshöfða 16 segir að upphaflega hafi það vakað fyrir stofnendum verslunarinnar að starfrækja eins konar „nördabúð“ fyrir bílaáhugafólk: „Við sáum fyrir okkur að þjónusta fólk sem er eins og við, með ólæknandi bíladellu og ástríðu fyrir því að halda bílunum sínum hreinum og fallegum. Fljótlega varð þó ljóst að viðskiptavinahópurinn var mjög fjölbreyttur og ætli það megi ekki segja að í dag séu um 30% þeirra sem koma í verslunina til okkar með bíladellu á háu stigi en hin 70% ósköp venjulegt fólk sem finnst gaman að hafa bílinn sinn glansandi fínan.“
Til að gera langa sögu stutta býður Classic Detail í dag upp á um 900 vörunúmer og má þar finna allar mögulegar gerðir af sápum, bóni og aukahlutum fyrir bílaþrifin.
Jökull, sem sjálfur segist hafa verið með mikla bíladellu í fjóra áratugi, segist vita fátt betra en að nostra við óhreina bíla svo að þeir sýni sínar bestu hliðar. „Skemmtilegast af öllu er að taka bíl sem er allur orðinn rispaður og mattur og taka hann í gegn á nokkrum dögum, og lagfæra gamla lakkið svo að það verði eins og nýtt og jafnvel betra.“
Þeir hjá Classic Detail eru duglegir að deila ástríðu sinni og halda reglulega námskeið þar sem farið er djúpt ofan í þrif og standsetningu bifreiða, en námskeiðin eru haldin eftir forskrift bandaríska fyrirtækisins Chemical Guys: „Við erum tveir hjá fyrirtækinu sem höfum fengið kennsluréttindi hjá þeim og kallaði það á að fara þrisvar sinnum út til þeirra á námskeið. Á þessum námskeiðum höfum við þann háttinn á að fá til okkar nýlegan bíl sem hefur látið á sjá og förum í gegnum það með sex nemendum – algjörum byrjendum – að þrífa bílinn og lagfæra skemmdir. Oft eru þetta bílaleigubílar sem verða fyrir valinu, jafnan í kringum þriggja ára aldurinn en lakkið á þeim er iðulega eins og á sjö eða átta ára gömlum bíl,“ útskýrir Jökull. „Í lok námskeiðsins, sem tekur einn dag, eru þessir bílar orðnir um það bil 93 til 97% rispufríir og skínandi hreinir.“
Lakkið orðið mun viðkvæmara
Eflaust er leitun að þeim lesanda sem þykir ekki gaman að halda af stað á nýþvegnum og bónuðum bíl, og mörgum þykir það mjög gefandi að þrífa heimilisbílinn í hólf og gólf. Jökull bendir þó á að það sé að vissu leyti vandasamara að þvo og bóna bíla í dag en fyrir 30 eða 40 árum og auðvelt að skemma lakkið ef ekki er farið varlega. „Lökkin hafa breyst svo mikið og í stað olíulakka og tveggja þátta epoxý-lakka eru komin akríl- og vatnsbaseruð lökk sem eru viðkvæmari en þau gömlu. Maður gat komist upp með það fyrir nokkrum áratugum að einfaldlega heimsækja næsta þvottaplan og skrúbba bílinn með skítugum þvottakústi en í dag er ekki hægt að gera það í mörg skipti áður en fer að sjá á lakkinu,“ útskýrir hann. „Lökkin sem framleiðendur nota í dag eru mýkri og fyrir vikið viðkvæmari fyrir rispum, auk þess að þau þola illa hreinsiefni með hátt pH-gildi.“
Jökull segir að því miður leysi það ekki vandann að fara með bílinn í snertilausa þvottastöð. „Það ætti að nota sápur með pH-gildi í kringum 7 til 7,5 en hjá snertilausu stöðvunum þarf að nota hreinsiefni með mjög hátt pH-gildi – yfirleitt frá 11 og upp í 14 – ef það á að takast að fjarlægja óhreinindi af bifreiðinni. Slíkt fer ekki vel með bílinn og hætt er við því að plastfletir gráni fljótt og lakkið mattist.“
Góðu fréttirnar eru þær að ef bifreiðin hefur verið þrifin rækilega og bónuð með bestu fáanlegu efnum sem minnka viðloðun óhreininda má oft hreinsa ökutækið hratt og vel með háþrýstidælu. „En það á bara við yfir sumarmánuðina og á veturna er ekki annað í boði en að snerta bílinn til að ná honum hreinum.“
Tvær fötur eru algjör nauðsyn
Lykillinn að því að þrífa bílinn vel og fara vel með lakkið er, að sögn Jökuls, að nota svokallað tveggja fötu kerfi og brúka þvottahanska úr örtrefjaþráðum. Jökull segir það af og frá að notast við svamp og eru örtrefja-þvottahanskarnir miklu betri því að ef þeir fanga agnir sem geta rispað lakkið leita agnirnar inn í örtrefjarnar. „En ef það sama gerist þegar þvegið er með svampi situr kornið yst á svampinum og verður það fyrsta sem snertir lakkið.“
Að nota tvær fötur er ekki flókið: Í annarri fötunni er sápublandað vatn og í hinni hreint vatn sem notað er til að skola þvottahanskann inni á milli, en neðst í þeirri fötu er rist sem þvottahanskanum er nuddað utan í til að losa úr honum óhreinindi og agnir.
Þá þarf að nota réttu efnin og segir Jökull gott að velja sápur sem hafa nokkuð sleipa áferð en það veitir aukna vörn gegn rispum. „Og ef menn hafa t.d. látið setja keramíkhúð á bílinn þá skiptir máli að fylgja vandlega ráðleggingum þess sem sá um verkið því að nota þarf réttu efnin til að skaða ekki húðina. Það gerist allt of oft að við fáum til okkar viðskiptavini sem hafa augljóslega ekki fengið réttar upplýsingar, eða ekki fylgst nógu vel með því sem þeim var sagt.“
Byrjað á dekkjum og felgum
Hvernig á svo að þrífa bílinn rétt og vel? Jökull minnir á að forðast eigi að þvo bíla í beinu sólarljósi, og að þeir megi ekki vera of heitir, en annars ganga þrifin einfaldlega út á það að vinna skref fyrir skref, og best er að byrja á að þrífa dekkin og felgurnar. Á dekkin eru notuð sérstök hreinsiefni, og oft þarf að nota járnútfellandi efni á felgurnar til að losa um bremsuryk. „Það er áríðandi að láta þessi efni ekki þorna á felgunum en þau eru látin sitja í 4-5 mínútur og ef það dugar ekki til má nudda óhreinindin í burtu með bursta.“
Því næst eru hreinsiefnin skoluð af dekkjunum og felgunum og þá er röðin komin að tjöruhreinsinum. Jökull segir um tvo styrkleika af tjöruhreinsi að velja og ef sterkari útgáfan er notuð þarf að gæta að því að hún komist ekki í tæri við ljósin á bílnum því hún getur skemmt plastið og valdið því að örfínar sprungur myndast.
Vitanlega má ekki láta tjöruhreinsinn sitja of lengi á lakkinu, og þegar hann hefur verið skolaður af er komið að því að sápuþvo bílinn.
Jökull minnir á að nota tvær fötur og örtrefjahanska, en hann segir það líka geta einfaldað þrifin mjög að nota háþrýstidælu, pumpubrúsa eða einfaldlega garðslöngu með þar til gerðum aukabúnaði til að úða sápufroðu yfir bílinn.
Bíllinn er svo handþveginn í nokkrum köflum og byrjað efst, og þvottahanskinn hreinsaður vel í skolvatns-fötunni og undinn áður en honum er stungið í sápuvatns-fötuna og þvottinum haldið áfram. „Þegar þvottinum er lokið ætti sápuvatnið enn að vera bleikt eða blátt – það er að segja í upprunalegum lit sápunnar – en skolvatnið að vera svo skítugt að ekki sjáist til botns í fötunni,“ segir Jökull.
Sápan er síðan skoluð af bílnum og koma þá nokkrir möguleikar til greina. Það má þurrka bílinn með örtrefjahandklæði, blása hann þurran ef menn eiga til þess réttan búnað, eða bera strax á bónefni sem mega fara á blautt lakkið. Jökull segir eina vinsælustu vöruna hjá Classic Detail einmitt vera fljótandi bón sem er einfaldlega sprautað yfir bílinn strax og sápan hefur verið skoluð af honum, og síðan strokið yfir með örtrefjahandklæði og situr þá glansandi bónhúðin eftir.
Jökull mælir líka eindregið með því að bera vatnsfælandi efni á rúðurnar enda er það mikilvægt öryggisatriði og stórbætir útsýni úr bílnum þegar rignir. Síðasta skrefið er að bera gljáa á dekkin, og hér skiptir máli að hafa þrifið gúmmíið vel í upphafi svo að gljáinn bindist vel við dekkin og endist lengi.
Leðrið þarf næringu
Svo má ekki gleyma að þrífa bílinn að innan, þó að yfirleitt megi gera það sjaldnar. Jökull bendir á að Classic Detail selji hreinsandi efni frá japönskum framleiðanda sem bera megi á vínil, plast og gúmí, og meira að segja á snertiskjána en þá er efninu úðað í örtrefjaklút og ekki beint á skjáinn. „Og þó að það sé gefið upp að nota megi þetta efni á leður þá er alltaf gott – ef það eru alvöru leðursæti í bílnum – að bera á þau sérstök leðurhreinsiefni af og til. Þessi efni næra leðrið og halda því mjúku og sterku og hjálpa til við að halda sprungum í skefjum.“