Fasi tvö er hafinn í vorveiðinni. Vatnaveiðin er komin á fullt og þjóðgarðurinn á Þingvöllum tók á móti fyrstu veiðimönnunum um páskahelgina. Elliðavatn opnar svo á fimmtudag og við bjóðum sumarið velkomið. Fasi eitt er þegar sjóbirtingsveiðin hefst í byrjun apríl en nú er silungsveiðin í vötnum að taka flugið.
Hraunsfjörður er farinn að gefa og fyrstu fiskarnir veiddust þar um páskahelgina. Bjarni Júlíusson ásamt félögum var að veiðum og fengu þeir bleikjur og sjóbirting. Bjarni sagði í samtali við Sporðaköst að í Hraunsfirðinum snerist þetta fyrst og fremst um hvenær ísa leysti og hlýnaði aðeins. Hann nefndi til sögunnar að komi hlýindi í viku eða svo „verður mokveiði,“ tilkynnti hann.
Leynivopnið Glitfló
„Nei. Ég hef fengið fiska þarna snemma í apríl. Öllu máli skiptir hvenær ísa leysir og hvenær fer að hlýna. Stóra bleikjan er nefnilega í lóninu mest allt árið. Lónið er ferskvatn sunnan til og ísalt að norðan. Í norðurhlutanum er marfló sem hún getur hámað í sig allt árið,“ upplýsti Bjarni þegar hann var spurður um hvort þetta væri óvenju snemmti fyrir fyrstu fiskana úr Hraunsfirðinum.
Þeir fiskar sem þeir félagar veiddu komu á Bleika og bláa og á Rauðvín. Vissulega reyndu þeir félagar marfló og ekki síður leynivopnið, Glitfló. Fallegt nafn á flugu og hefur gefið Bjarna góða veiði í gegnum árin í lóninu. „Sérstaklega hefur Glitfló gefið mér vel þegar vatnið er með örlitlum vorlit.“ Sporðaköstum finnst fátt skemmtilegra en þegar menn deila leynivopnum eða stöðum. Þarna er komin fluga til að reyna í Hraunsfirðinum. Svo skyldu menn ekki mæta þar nema hafa Langskegginn við hendina.
Lítið um stóra í Þingvallavatni
Þingvallavatn tók á móti fyrstu veiðimönnunum um páskana. Einn af þeim sem lætur sig ekki vanta er Cezary Fijalkowski. Hann gerði fína veiði um páskana og landaði þar sautján urriðum. Nú eru breyttir tímar. Fyrir nokkrum árum voru urriðamiðin sem Cezary og félagar stunda full af stórurriða. Algengir fiskar á bilinu áttatíu og yfir níutíu sentímetra. Af þessum sautján sem Cezary og félagar lönduðu var aðeins einn sem telst stór. Hann var 83 sentímetrar. Hinir voru allir á bilinu 50 til 65 sentímetrar. Öðruvísi mönnum áður brá.
Mörg fleiri vötn hafa opnað. Meðalfellsvatn, Kleifarvatn og fleiri staðir sem eiga pláss í hjörtum veiðimanna. Veiðikortið er eins og venjulega ein bestu kaup sem hægt er að gera þegar kemur að veiðileyfum. Það veitir aðgang að 37 vötnum víðsvegar um land og kostar enn og aftur 9.900 krónur. Ingimundur Bergsson sem haldið hefur utan um kortið segir óbreytt verð, enn eitt árið vera lið í því að sporna við verðbólgu. Allir taka ofan fyrir þeim áformum.
Sumarhátíð við Elliðavatn
Á facebooksíðu Veiðikortsins er reglulega hægt að sjá myndir og fréttir af veiði víðsvegar að og eru korthafar greinilega duglegir við að senda myndir þegar vel gengur.
Svo er stóri dagurinn á fimmtudag. Sumardagurinn fyrsti er líka dagurinn sem Elliðavatn opnar. Margir bíða í ofvæni eftir því. Verðurspáin er alveg spennandi fyrir þann dag. Kalt í morgunsárið en hlýnar hressilega þegar líður á morguninn og miðað við kort Veðurstofunnar fer hiti í tólf gráður. Það gefur góð fyrirheit. Hátíðardagskrá verður í boði við Elliðavatn á fimmtudag og munum við gera betur grein fyrir henni þegar nær líður.
Keyptu I Guðmundsson
Veiðiportið hefur keypt heildverslunina I Guðmundsson ehf. Heildsalan hefur starfað óslitið frá árinu 1932 og flutt inn mikið af veiðivörum og selt til veiðiverslana og annarra dreifingaaðila undir merkinu IG veiðivörur.
Hjónin Tómas Skúlason og Katrin G. Whalley sem eiga og reka Veiðiportið Grandagarði hafa þar með tekið við keflinu af Hauki Bachmann sem átti heildverslunina og hefur verið andlit hennar áratugum saman.
„Þetta er spennandi skref fyrir okkur. Við stefnum að því að auka vöruúrvalið og koma með ýmsar nýjungar bæði þegar kemur að vöruúrvali og nýjum vörumerkjum. Nú verður I Guðmundsson á netinu og geta allir endursöluaðilar og útgerðir skráð sig inn og gengið frá sínum pöntunum hratt og örugglega,“ upplýsti Tómas í samtali við Sporðaköst.