mið. 23. apr. 2025 19:41
Sunneva Ósk Guðmundsdóttir, t.v. á myndinni, er framleiðslustjóri hjá ÚA og Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir, sem stýrir gæðamálunum, við hlið hennar. Báðar eru þær sjávarútvegsfræðingar og meira til að mennt.
Konurnar við stjórnvölinn hjá ÚA

„Okkur gengur vel að manna starfsemina. Þetta er eftirsóttur vinnustaður og slíkt er góð meðmæli,“ segir Sunneva Ósk Guðmundsdóttir hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.

Þar er Sunneva framleiðslustjóri og við hlið hennar er Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir gæðastjóri. Saman eru þær, með öðrum, í aðalhlutverki við stjórnina hjá ÚA þar sem í gegn fara um 80 tonn á dag.

Hráefnið er þorskur og ufsi, besti fiskur í heimi sem unninn er eftir óskum. Meginlínan í viðskiptunum er sú að Bretar taka afurðirnar frosnar og Frakkar ferskar og kröfurnar eru gerðar samkvæmt því.

Miklar kröfur um ferskleika og skilatíma

ÚA er einn af stærri vinnustöðunum á Akureyri. Starfsmenn í landi er um 140 talsins og þá eru sjómenn á skipum Samherja sem leggja vinnslunni til hráefni ekki meðtaldir. ÚA var stofnað árið 1945 og var lengi í bæjareigu. Svo tóku aðrir við keflinu; það er Eimskip og svo Brim. Árið 2011 eignaðist Samherji félagið, en því jafnhliða rekur fyrirtækið frystihús á Dalvík. Ákveðin verkaskipting er milli þess og vinnslunnar á Akureyri.

„Auðvitað er talsverð áskorun að halda uppi vinnslu virka daga ársins, samanber að viðskiptavinir gera miklar kröfur um ferskleika vörunnar og skilatíma. En þar búum við að því að vinnsla og útgerð eru á sömu hendi. Ísfisktogararnir Björg, Kaldbakur, Harðbakur og Björgúlfur landa hvert á sínum degi í vikunni og svo er alltaf eitthvað keypt á mörkuðum. Þannig helst hér stöðug vinnsla á vöru í allra hæsta gæðaflokki. Og til þess að svo verði erum við líka með frábært starfsfólk sem gert er vel við,“ segir Sunneva sem er sjávarútvegsfræðingur aukinheldur sem nú er með gráðu í mannauðsstjórnun.

 

Sterk keðja og allir séu á sömu blaðsíðu

„Í hátæknivæddri matvælaframleiðslu þarf sterka keðju. Allir sem að verkum koma þurfa að vera á sömu blaðsíðu,“ segir Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir gæðastjóri ÚA. Hún er sjávarútvegs- og viðskiptafræðingur að mennt, hefur starfað hjá Samherja síðastliðin þrjú ár og tók við núverandi starfi fyrir hálfu öðru ári. Að nokkru leyti liggur í orðsins hljóðan hvað í starfi hennar felst, það er að fylgjast með að varan sem unnin er í fiskvinnslunni uppfylli alla staðla og þær kröfur sem kaupendur gera.

Fiskur sem kemur í vinnsluna hjá ÚA er sjaldnast nema 15-20 mínútur að rúlla í gegn; það er frá flökun uns hann er kominn ferskur í kassa og inn á kæli. Sé varan fryst eru aðferðir í vinnslunni allar hinar sömu nema þá fara flök og bitar í gegnum lausfrysti í ferli sem tekur tæpan klukkutíma.

 

Allt er vaktað vel

„Helsti staðallinn sem við vinnum eftir er BRC og er alþjóðlegur,“ segir Guðbjörg Ósk. „Úttektarfulltrúi kemur einu sinni á ári og tekur vinnsluna ítarlega út eftir þeim kröfum sem gerðar eru. Einnig koma erlendir viðskiptavinir hingað í vinnsluna til að líta eftir því að við förum eftir þeim kröfum sem þeir gera. Sömuleiðis setja kaupendur, til dæmis veitingahús og verslanir, fram sínar óskir um vöruna, sem þarf að vera samkvæmt ákveðinni þyngd, lögun og svo framvegis. Allar okkar gæðaskoðanir í gegnum ferlið eru skráðar í framleiðslukerfið okkar sem gerir okkur kleift að fylgjast vel með framleiðslu á vörunum. Sjálf sit ég annars mikið við tölvuna, fylgist með framvindunni og fylli út skýrslur og spurningalista.”

Hitastig er afgerandi áhrifaþáttur í matvælavinnslu. Með því er fylgst mjög nákvæmlega hjá ÚA, alveg frá því fiskurinn er veiddur og settur í lest skips uns hann fer úr húsi sem fullunnin vara.

„Í raun má segja að um öll stig vinnslunnar gildi staðlar og viðmið og er það vaktað vel í gegnum ferlið. Með því tryggjum við örugga gæðavöru,” segir gæðastjóri ÚA.

til baka