Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningur varðandi arf
Góðan dag Eymundur.
Út af heilsufarsástæðum mun ég fá greiðslur frá Tryggingastofnun en maðurinn minn mun fá arf á næstunni sem er töluverð upphæð sem hann hefur ætlað sér að geyma til efri ára, þannig að þessir peningar verða bara lagðir til hliðar og munu ávaxtast. Eins og ég skil kerfið þá deilast fjármagnstekjur niður á hjón og því munu hans fjármagnstekjur skerða greiðslur til mín frá TR. Þetta er seinna hjónaband okkar beggja þannig að fyrirkomulagið hefur verið að hans tekjur eru hans einungis hans tekjur og eins með mínar. Er einhvernveginn hægt að koma þessu fyrir að þetta hafi ekki áhrif á mínar greiðslur frá Tryggingastofnun? Setja þetta í skuldabréf? Allar hugmyndir eru vel þegnar.
Kveðja,
KPK
Sæl
Eins og þú ert greinilega upplýst um eru fjármagnstekjur eru alltaf sameiginlegar hjá hjónum og samsköttuðu fólki í óvígðri sambúð. Slíkt getur komið misjafnlega niður á fólki, t.d. þegar fólk byrjar sambúð á ójöfnum fjárhagslegum grunni og hefur raunverulega ekki sameiginlegan fjárhag. Dæmi um slíkt er ef annar sambúðaraðili er á framfæri Tryggingastofnunar eða þiggur atvinnuleysisbætur. Þá geta þær réttmætu bætur skerst ef hinn sambúðaraðilinn hefur fjármagnstekjur. Við þetta fellur niður réttur til bóta á grunni sameiginlegra fjármagnstekna sem eru það kannski ekki í raun.
Ég get ekki ráðlagt ykkur eða manninum þínum að ávaxta þessa fjármuni ekki. Versta hugmynd í heimi er að geyma þetta „undir koddanum“. Eins og ég hef reyndar bent á er betra að hafa fjármuni í góðri ávöxtun og greiða af því 22% fjármagnstekjuskatt á kostnað þess að fá ekki bætur frá Tryggingastofnun sem bera 37% skatta.
Fjármálastofnanir bjóða upp á ýmsa möguleika við langtímaávöxtun. Í tilfelli mannsins þíns ætti hann kannski að íhuga að fjárfesta í sjóðum eða verðbréfum sem taka gengishækkunum (eða lækkunum eftir atvikum) yfir tíma. Fjármagnstekjur af slíkri ávöxtun raungerast ekki fyrr en við upplausn. Slíkt fyrirkomulag gæti verið heppilegra frekar en að vista fjármuni á hagstæðum bankareikningum þar sem fjármagnstekjur reiknast í rauntíma.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.