Umræða um verðmæti fermingargjafa hefur blossað upp á samfélagsmiðlum upp á síðkastið – enda fermingartímabilið í fullum gangi og margir að velta því fyrir sér hvað sé viðeigandi að gefa.
Í Skemmtilegri leiðinni heim ræddu þau Regína Ósk, Jón Axel og Ásgeir Páll þetta umtalaða mál. Regína nefndi að umræðan á netinu virðist skiptast í tvær fylkingar: Annars vegar finnst fólki það frekja þegar margir sameinast um eina gjöf, til dæmis tíu manns sem gefa samtals tíu þúsund krónur. Hins vegar eru þeir sem leggja meiri áherslu á samveruna – að fólk mæti frekar en að sitja hjá af því það hefur ekki efni á dýrri gjöf.
„Þetta var ekki djók“
Einn hlustandi deildi þó reynslu sem sem vakti mikla athygli – og hneykslun, í þættinum:
„Mér var einu sinni boðið í fermingarveislu og á boðskortinu stóð að allar gjafir undir 5.000 krónum væru afþakkaðar,“ sagði hlustandinn.
Þáttarstjórnendur brugðust við með furðu og spurðu hvort þetta væri grín.
„Nei, þetta var ekki djók,“ sagði hlustandinn og bætti við að hann hefði verið í vafa um hvort hann ætti að mæta – en ákveðið að láta sig hafa það. Stemningin í veislunni hafi þó verið mjög fín.
„Þetta finnst mér svolítið hámark frekjunnar,“ sagði Regína um málið.
Hér má hlusta á umræðurnar.