Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson og fjölmiðlastjarnan Halla Oddný Magnúsdóttir festu kaup á einbýlishúsi við Barðaströnd 20 á Seltjarnarnesi árið 2020. Húsið er 263 fm að stærð og var reist 1968. Húsið er voldugt og reisulegt en það var teiknað af Guðmundi Kr. Kristinssyni og ber hans helstu sérkenni í hönnun og útliti.
Þótt húsið væri fallegt þá þurfti að gera breytingar á því, bæði að innan og að utan.
Nú hafa hjónin Víkingur Heiðar og Halla Oddný fengið leyfi til að byggja yfirbyggt bílskýli úr stáli og timbri við húsið. Hjónin fengu Gláma-Kím arkitekta til að hanna bílskýlið og sækja um byggingarleyfið.
„Gláma-Kím Arkitektar sækja um leyfi fyrir yfirbyggðu bílskýli úr stáli og timbri við húsið Barðaströnd 20. Þak verður dúklagt og tyrft. Áformin eru í samræmi við breytingu á deiliskipulagi sem nýlega var grenndarkynnt fyrir nágrönnum án þess að athugasemd bærist.
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012,“ segir í fundargerð um málið. Fundinn sátu Svana Helen Björnsdóttir, sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson. Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi var fundarritari.
Smartland sagði frá því 2019 þegar Víkingur Heiðar og Halla Oddný settu fallega íbúð sína á sölu en stuttu síðar keyptu þau húsið við Barðaströnd.
https://www.mbl.is/smartland/heimili/2020/01/22/vikingur_heidar_og_halla_oddny_flytja/