mán. 28. apr. 2025 06:00
Eymundur Sveinn Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf, svarar spurningum lesenda Smartlands.
Má ellilífeyrisþegi búa í sumarbústað?

Eymundur Sveinn Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá ellilífeyrisþega sem spyr hvort hann megi búa í sumarbústað. 

Hæ hæ Eymundur. 

Ég er að selja mína íbúð og kaupa sumarbústað, eða heilsárshús sem ég ætla að búa í. Má ég eiga lögheimili í sumarhúsinu og fæ ég ellilífeyrinn og heimilisuppbótina sem ég fæ núna áfram?

Kveðja, 

JK


Sæll kappi

Það er ákvörðun viðkomandi sveitarfélags hvort hægt sé að skrá lögheimili í sumarhúsi og er það almennt ekki hægt. Greinargóðar upplýsingar um heimilisuppbót er að finna hér sem þú þyrftir að skoða vandlega.

Heimilisfesti hefur ekki áhrif á grunnellilífeyri en til þess að fá heimilisuppbót þarf að uppfylla ýmis skilyrði þ.m.t staðfestingu á búsetu. Ef þú býrð í sumarhúsi gætir þú þurft að leita til opinbers aðila á vegum sveitarfélagsins sem þarf að staðfesta búsetu þína til Tryggingastofnunar. Til dæmis sveitarstjóri, félagsráðgjafi, læknir eða annar opinber aðili sem er bær til slíkrar staðfestingar.

Kveðja,

Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR. 

til baka