lau. 26. apr. 2025 13:13
Filippseyingur með vænan túnfisk. Evrópskar útgerðir segja taílenskar vinnslur kaupa illrekjanlegan afla.
Vilja undanþágu fyrir túnfisk

Í byrjun mánaðarins fór fram fundaröð fulltrúa Evrópusambandsins og Taílands þar sem unnið var áfram með fríverslunarsamning milli sambandsins og hins asíska ríkis. Samtök evrópskra útgerða, Europêche, lýsa áhyggjum af innflutningi á taílenskum túnfiski og afleiðingunum fyrir evrópskan túnfiskiðnað.

Bæði Evrópusambandið og Taíland hafa sett sér það markmið að ljúka samningaviðræðum um fríverslunarsamning á þessu ári en síðast funduðu fulltrúar ríkjanna 31. mars og 1. apríl. Í tilefni af viðræðunum sendu Europêche frá sér yfirlýsingu þar sem þess var krafist að túnfiskafurðum skyldi haldið utan ákvæða mögulegs fríverslunarsamnings.

Bentu samtökin á að Taíland er stærsti framleiðandi og útflytjandi túnfiskafurða á heimsvísu og eru flutt frá ríkinu um 470 þúsund tonn af túnfiski í dós og öðrum túnfiskafurðum á ári hverju. Um tíu þúsund tonn eru seld árlega til ríkja Evrópusambandsins og er á þeim 24% tollur.

 

„Ef fríverslunarsamningurinn ætti að taka til túnfiskafurða myndi undanþága þessara skatta sjálfkrafa leiða til gríðarlegs innflutnings, miðað við töluverða útflutningsgetu taílenskra framleiðenda,“ segir í yfirlýsingu evrópsku samtakanna. „Evrópskir framleiðendur, sérstaklega túnfiskflotinn, standa frammi fyrir aukinni og ósanngjarnri samkeppni.“

Hinni ósanngjörnu samkeppni er lýst sem flóði inn á evrópskan dagvörumarkað af túnfiskafurðum með lítil gæði, sem framleiddar eru á svæði með minni félagslegar, umhverfis- og eftirlitskröfur.

Ójafn leikur

Evrópsku túnfiskútgerðirnar vekja athygli á því að gríðarleg samkeppni er á túnfiskmarkaði heimsins en evrópski túnfiskveiðiflotinn sæti takmörkunum sem ekki ríki víða annars staðar.

Meðal annars er vísað til takmarkana á hámarksafla, rafrænnar vöktunar alla daga allan sólarhringinn, reglubundins eftirlits eftirlitsmanna og strangra reglugerða. Þá sé flotinn jafnframt MSC-vottaður fyrir að stunda sjálfbærar veiðar og fylgi ströngustu umhverfis- og samfélagskröfum sem tíðkast. Þetta segja samtökin gera að verkum að rekstrarkostnaður túnfiskveiða evrópskra útgerða verði sá mesti sem tíðkast í slíkum veiðum.

Rekstrarumhverfi evrópskra túnfiskútgerða hefur verið óhagstætt að undanförnu fullyrða samtökin og vísa til þess að á síðasta ári hættu Via Océan og Nicra 7 rekstri. Nú þegar eru evrópskar útgerðir sagðar í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum við túnfiskútgerðir frá ríkjum utan Evrópusambandsins sem þurfa ekki að uppfylla sömu kröfur og stunda jafnvel ólöglegar, ótilkynntar eða stjórnlausar veiðar.

„Túnfiskur í stykkjum og dósum sem unninn er í Taílandi úr asískum fiskveiðum sem uppfylla enga staðla eru bein ógn við sjálfbæra evrópska flotann, sem stendur frammi fyrir hærri kostnaði vegna strangara eftirlits, auk félagslegra og umhverfislegra staðla. Fríverslunarsamningur við Taíland sem heimilar tollfrjálsan innflutning túnfiskafurða til ESB myndi aðeins dýpka það ójafnvægi sem fyrir er, gera evrópskum flota enn erfiðara fyrir og grafa undan sanngjarnri samkeppni,“ er haft eftir Xavier Leduc, formanni túnfiskútgerða innan Europêche, í yfirlýsingu samtakanna.

 

Verulegir ágallar

Þá fullyrða samtökin að taílenskar fiskvinnslur flytji inn til vinnslu túnfisk í miklu magni frá ríkjum þar sem viðhafðir eru ógagnsæir starfshættir og óljós viðmið hvað hollustuhætti varðar. „Nýjasta úttekt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá árinu 2023 benti á viðvarandi ágalla á sviði hollustuhátta og matvælaöryggis, sem leiddi í ljós að hún var ófær um að tryggja að evrópskar kröfur séu uppfylltar.“

Einnig er fullyrt að Taílandi hafi mistekist að innleiða samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar númer 188, en það er alþjóðasáttmáli um mannréttindi og vinnu á sjó. Sáttmálanum er ætlað að tryggja sjómönnum viðunandi vinnuaðstæður og koma í veg fyrir vinnuþrælkun um borð í fiski- og flutningaskipum.

Vert er að geta þess að Ísland hefur ekki gerst aðili að samþykktinni eða innleitt samþykktirnar hér á landi.

Ísland þegar með samning

Á síðasta ári lauk Ísland gerð samkomulags um fríverslunarsamning við Taíland og kveður samningurinn á um tollfrelsi fyrir allar helstu útflutningsvörur Íslands. Meðal annars felur hann í sér fullt tollfrelsi fyrir lax, þorsk, grálúðu og loðnuhrogn sem og vélbúnað til matvælaframleiðslu og stoðtæki.

Fjallað var um það í febrúarblaði mílna að margir sjá ákveðin tækifæri í útflutningi sjávarafurða til Taílands til áframvinnslu fyrir Japansmarkað. Í dag fara fleiri afurðir í gegnum Kína en vegna vaxandi spennu í Asíu, spennu á heimsvísu, óstöðugleika í lagaumhverfi í Kína og fleiri þátta leita nú margir framleiðendur leiða til að færa framleiðslu sína frá Kína til annarra Asíuríkja.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2024/12/02/tollfrelsi_sjavarafurda_til_tailands/

til baka