Fyrsta nótin fyrir fiskeldi sem framleidd var úr endurunnum veiðarfærum leit dagsins ljós undir lok síðasta árs, en norska fyrirtækið Nofir sækir meðal annars mörg hundruð tonn af veiðarfærum til Íslands fyrir endurvinnsluverkefni sitt.
Þessi fyrsta nót er gerð fyrir sjókvíaeldi og er afrakstur samstarfs Nofir og fyrirtækjanna AKVA Group Egersund Net, Aquafil, Grieg Seafood og Hampiðjunnar. Saman hafa félögin þróað og framleitt nótina.
„Þetta hefur verið markmið hjá okkur síðan við byrjuðum fyrir 16 árum. Sú staðreynd að þetta er mögulegt lofar líka góðu fyrir margar aðrar atvinnugreinar,“ segir Öistein Aleksandersen, stofnandi og rekstrarstjóri Nofir, í færslu á vef fyrirtækisins.
„Það er ekki auðvelt að framleiða nót fyrir fiskeldi sem þolir þær aðstæður sem við búum við hér í Noregi. Kröfurnar eru strangar og ekkert rými fyrir mistök,“ segir Aleksandersen, en eitt af því sem tekið hefur tíma er að tryggja að allt efni uppfylli staðla fyrir kröfur sem gerðar eru í fiskeldi.
Þessi fyrsta vara er framleidd með endurunnu næloni úr nótum, netum og öðrum veiðarfærum og nælonvörum. Úr verða þræðir úr svokölluðu Econyl sem er vörumerki þessa endurunna nælons.
Til stendur að Hampiðjan ljúki við gerð sambærilegrar nótar sem framleidd er með sömu aðferð, en báðar nætur verða settar út á sama tíma á eldisstöð norska félagsins Grieg Seafood.
Fleiri þúsund tonn
Á síðasta ári tók Nofir við 8.521 tonni af efni til endurvinnslu og tókst félaginu að endurvinna 6.510 tonn, að því er fram kemur á vef félagsins. Það sem ekki fæst endurnýtt eða endurunnið er nýtt í svokallaða orkuendurnýtingu, þar sem það er brennt til framleiðslu raforku. Þannig nýtist plastefnið en eyðist á sama tíma, sem dregur úr plastmengun.
„Sífellt meira er hægt að endurvinna í nýja þræði og síðan í nýjar vörur sem eru notaðar af þekktum vörumerkjum, allt frá Gucci og BMW til Norrøna og Ege Tepper,“ útskýrir Aleksandersen, sem viðurkennir þó á að krefjandi tímar séu í kortunum og bendir á óvissu í efnahagskerfum heimsins sem og verðhækkanir, auk strangari krafa Evrópusambandsins um framleiðendaábyrgðarkerfi og útflutning úrgangs.
Hann kveðst þó sannfærður um að tækifærin séu fjölmörg og vísar til þess að það magn sem fengist hafi til endurvinnslu hafi aukist um 170% á undanförnum fimm árum. Einnig telur hann vaxandi áhuga og nýsköpun í fiskveiðum og fiskeldi.
Gjaldfrjáls afhending
Greint var frá því haustið 2022 að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Nofir hefðu komist að samkomulagi um samstarf til að auka enn frekar endurnotkun og endurvinnslu veiðarfæra frá Íslandi sem innihalda plast, en til að fá að flytja út blönduð úrgangsefni þurfti sérstakt leyfi.
Fram að þessum tímamótum hafði Nofir átt í samstarfi við Egersund á Eskifirði í áraraðir um að koma veiðarfærum til endurvinnslu. Slíkt samstarf var hins vegar fært út til fleiri veiðarfæragerða á landinu og stóðu þær í samstarfi við SFS um söfnun á veiðarfærum til endurnýtingar og endurvinnslu.
Undanfarin tæp þrjú ár hafa því allir hér á landi sem vilja getað komið notuðum og úr sér gengnum veiðarfærum til móttökustöðva sem pakka og senda þau til Nofir, gjaldfrjálst. Hægt hefur verið að skila veiðarfærum til Hampiðjunnar, Ísfells, Egersund, Veiðarfæragerðar Skinneyjar-Þinganess, Netaverkstæðis G.Run og Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík.
https://www.mbl.is/200milur/frettir/2022/09/20/hefja_samstarf_um_endurvinnslu_veidarfaera/